FRÉTT ÝMISLEGT 08. SEPTEMBER 2009

Ársskýrsla Hagstofu Íslands 2009Ársskýrsla Hagstofu Íslands fyrir árið 2008 hefur nú verið gefin út. Er það fyrsta ársskýrslan sem Hagstofan sendir frá sér, en stofnunin er sem kunnugt er ekki lengur sérstakt ráðuneyti, heldur sjálfstæð stofnun í samræmi við ný lög nr. 163/2007.

Í ársskýrslunni er gerð grein fyrir helstu áherslumálum stofnunarinnar og þeim fjármunum sem varið var til hagskýrslugerðar árið 2008.

Í inngangsorðum hagstofustjóra segir m.a. að nú þegar kröfur til hagskýrslugerðar aukast standi Hagstofan frammi fyrir því vandasama verki að draga saman rekstrargjöld eins og aðrar stofnanir ríkisins. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að um starfsemi Hagstofunnar gilda 240 bindandi gerðir Evrópusambandsins auk innlendrar lagasetningar. Hagstofan birtir tölfræði um framvindu efnahags- og félagsmála nær hvern virkan dag ársins í samræmi við innlendar og alþjóðlegar skuldbindingar. Um 70–80% af hagtölum er safnað að kröfu alþjóðastofnana, einkum Evrópusambandsins.

Auk skýrslu yfirstjórnar og umfjöllunar um fjármál og rekstur er í ársskýrslunni fjallað um samstarf við notendur, afnot af gögnum, útgáfur Hagstofunnar, starfsmannamál, erlent samstarf og síðast en ekki síst þær alþjóðlegu verklagsreglur sem Hagstofunni er gert að starfa eftir.

Skýrslan er 24 síður og hana prýðir fjöldi ljósmynda og skýringarmynda.

Ársskýrsluna má skoða hér á vefnum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.