FRÉTT ÝMISLEGT 01. OKTÓBER 2021

Sögulegar hagtölur

Fjármálakerfi í nútímaskilningi tók að myndast hér á landi á síðustu áratugum 19. aldar með stofnun sparisjóða, banka og seðlaútgáfu innanlands. Hvað Ísland varðar ná hagtölur um peninga- og bankamál aftur til ársins 1886 í nokkrum veftöflum sem fylgja þessari frétt. Í tölum fyrstu áratuga er aðallega stuðst við reikninga og ársskýrslur einstakra bankastofnana en það er ekki fyrr en eftir síðari heimsstyrjöldina sem almenn skýrslugerð um peninga- og bankamál nær góðum þroska.

Árið 1997 birti Hagstofa Íslands í ritinu Hagskinna – sögulegar hagtölur um Ísland – samantekt um banka- og peningamál í sögulegu ljósi. Elstu tölurnar hvíla á ýmsum heimildum, þar á meðal útgefnum ritum auk þess sem fjármálastofnanir birtu ársskýrslur og yfirlit um eigin starfsemi. Eftir að Seðlabanki Íslands var stofnaður með lögum frá 1957 mótaðist fljótlega eftir það heildstæð skýrslugerð í umsjón bankans um fjármálastofnanir, peninga- og gengismál og hliðstæð efni. Hefur Seðlabanki Íslands allar götur síðan borið meginábyrgð á slíkri talnaúrvinnslu sem hluta af opinberri hagskýrslugerð. Hagstofan fékk aðstoð starfsfólks Seðlabankans við undirbúning og útgáfu peningamálatalna í Hagskinnu eins og áður segir.

Í tilefni af 100 ára afmæli fullveldis Íslands árið 2018 gerði starfsfólk Seðlabankans átak í þá veru að taka saman tölulegar upplýsingar um þróun banka- og peningamála eins langt og heimildir leyfðu. Fólst sú vinna einkum í því að ýmsar tímaraðir í Hagskinnu um peningamál voru framlengdar til nútímans og niðurstöðurnar birtar á vef Seðlabankans. Meðal efnis sem Seðlabankinn bætti við tölum um voru helstu peningastærðir, innlán og útlán innlánsstofnana, vextir, skráð sölugengi erlends gjaldeyris og raungengi íslenskrar krónu, löng erlend lán, greiðslujöfnuður við útlönd, upplýsingar úr reikningum Seðlabanka Íslands og fleira.

Hinn 27. maí 2021 undirrituðu Seðlabankinn og Hagstofan skriflegt samkomulag um tilfærslu þessarar talnamiðlunar og að framvegis skyldu þessar löngu tímaraðir gerðar aðgengilegar á vef Hagstofunnar. Hagstofan fagnar þessu samkomulagi og telur viðeigandi að þessar tímaraðir verði uppfærðar og gerðar aðgengilegar almenningi í þeim miðlunarhluta á vef Hagstofunnar sem nefnist Sögulegar hagtölur. Er það góð og viðeigandi viðbót við aðrar þær hagtölur sem safnað hefur verið saman þar eftir margvíslegum efnisflokkum um íslenskt samfélag og þróun þess í lengri tíma ljósi.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.