FRÉTT ÝMISLEGT 20. OKTÓBER 2021

Evrópski tölfræðidagurinn er haldinn í dag undir kjörorðinu: „Tölfræði, vörn fyrir lýðræðið og gegn röngum upplýsingum“ en á þessum degi vekja hagstofur í Evrópu athygli á þýðingu evrópskra hagtalna fyrir samfélög í álfunni og minna á mikilvægi þess að lýðræðisríki standi á traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðiupplýsinga.

Í tilefni dagsins opnar Hagstofa Íslands nýja vefsíðu fyrir Greindu betur, undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar, sem haldin er af hagstofu Evrópusambandsins (Eurostat). Markmið keppninnar er að hvetja ungt fólk til þess að vera áhugasamt um tölfræðiupplýsingar með því að sýna þeim hvaða hlutverki tölfræði gegnir á ólíkum sviðum samfélagsins. Á vefsíðu Greindu betur má finna svör við ýmsum spurningum um opinbera tölfræði og hvernig hún verður til.

Keppnin fer fram vorið 2022 og verður keppt í tveimur aldursflokkum; 14-16 ára og 16-18 ára. Vinningslið í hverjum aldursflokki hljóta vegleg peningaverðlaun að launum og möguleika á þátttöku í Evrópsku tölfræðikeppninni.

Hvað eru hagtölur? - Greindu betur

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.