FRÉTT ÝMISLEGT 20. OKTÓBER 2018

Evrópski tölfræðidagurinn er haldinn á morgun, laugardaginn 20. október. Á þessum degi vekja hagstofur í Evrópu athygli á þýðingu og mikilvægi evrópskra hagtalna fyrir evrópskt samfélag. Lýðræðisríki þarf að standa á traustum grunni áreiðanlegra og hlutlausra tölfræðilegra upplýsinga. Í tilefni dagsins hefur Hagstofa Íslands framleitt myndband þar sem áherslan er á ungt fólk.

Í rúm 60 ár hafa hagstofur Evrópuríkja unnið saman í gegnum Evrópsku hagstofuna, Eurostat. Þar eru aðferðir og mælingar samræmdar til þess að samanburðarhæfar upplýsingar séu aðgengilegar. Tölfræðilegar upplýsingar veita stjórnvöldum gleggri yfirsýn og auðvelda einnig almenningi samanburð af ýmsu tagi sem eykur aðhald. Áreiðanlegar tölfræðilegar upplýsingar renna þannig stoðum undir lýðræðislega umræðu og auðvelda stjórnvöldum, fyrirtækjum og einstaklingum að taka betri ákvarðanir.


Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.