FRÉTT ÝMISLEGT 21. MARS 2023

Hagstofa Íslands hefur á undanförnum mánuðum unnið að undirbúningi fyrir jafningjamat (e. peer review) sem fram fer á vegum Evrópska hagskýrslusamstarfsins en markmið þess er að meta hvort hagskýrslukerfi landsins sé í samræmi við meginreglur evrópskrar hagskýrslugerðar.

Hagskýrsluyfirvöld í ríkjum Evrópusambandsins og EFTA sem og Eurostat, hagstofa sambandsins, falla undir jafningjamatið sem unnið er af teymum óháðra sérfræðinga og stendur yfir fram í júní í sumar. Með þessu gæðamati verður tekin út fagmennska og framleiðsluhættir Hagstofu Íslands og það sannreynt hvort stofnunin standi undir þeim gæðakröfum sem gerðar eru til evrópskra hagstofa.

Ferlið felur þannig í sér gæðamat á hagskýrslugerð Hagstofunnar og öðrum evrópskum hagstofum sem aðild eiga að Evrópska hagskýrslusamstarfinu og er framkvæmt með reglulegu millibili. Ferlinu lýkur með heimsókn sérfræðinga til viðkomandi hagstofu sem taka út verklagið og skrifa í kjölfarið lokaskýrslu. Auk þess að leggja mat á hagskýrslugerðina út frá meginreglum hagskýrslusamstarfsins er einnig lagðar fram ráðleggingar varðandi það hvernig bæta megi verklagið enn frekar til framtíðar. Hver hagstofa fyrir sig setur í framhaldinu saman aðgerðaáætlun um viðbrögð við tilmælum matsins.

Hagtölur koma daglega við sögu á öllum sviðum samfélagsins og gegna meðal annars lykilhlutverki þegar kemur að því að stuðla að upplýstri samfélagsumræðu og gera stjórnvöldum, fyrirtækjum, fræðasamfélaginu og almennum borgurum kleift að taka upplýstar ákvarðanir. Faglegt sjálfstæði hagstofa tryggir að hagtölur séu unnar án pólitískrar aðkomu og utanaðkomandi áhrifa. Samstarf evrópskra hagstofa gerir það meðal annars mögulegt að bera saman hagtölur á milli Evrópuríkja. Þá er samstarfið enn fremur til þess fallið að gera gott verklag við hagskýrslugerð stöðugt betra.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.