Nær 67 prósent af háskólanemum sem útskrifuðust árið 2011 voru konur. Til samanburðar voru „aðeins" 63 prósent útskrifaðra háskólanema árið 2011 konur í Svíþjóð, sem er það norræna ríki sem kemst næst því að jafna metin við Ísland. Þetta og margt annað má lesa í Norrænu hagtöluárbókinni 2012 (Nordisk Statistisk Årbog 2012) sem kemur út í dag, 21. nóvember.

Í Danmörku, þar sem konur er fæstar háskólanemar, voru 59 prósent útskrifaðra háskólanema konur árið 2011. Á öllum Norðurlöndunum hefur hlutfall kvenna sem útskrifast úr háskóla aukist undanfarin 10-12 ár og öll þau ár hafa konur verið í meirihluta þeirra sem luku háskólaprófi. Síðustu tölur frá Finnlandi sýna þó fækkun. Íslenskar konur standa sterkast í félagsvísindum, viðskipta- og lögfræði. Annars staðar á Norðurlöndum er flestar konur í félags- og heilbrigðisvísindum.

Norræna hagtöluárbókin 50 ára
Norræna hagtöluárbókin kemur í ár út í  50. sinn og er því fagnað með afmælistölfræði sem lýsir þróuninni á Norðurlöndum undanfarin 50 ár.

50 ára tölfræðina er hægt að nálgast á vefsíðu Norrænu ráðherranefndarinnar www.norden.org og þar eru bæði tölur og töflur, þar sem lesa má meðal annars um þróun sem orðið hefur á Norðurlöndum frá upphafi sjöunda áratugar síðustu aldar fram til dagsins í dag:

  • Færri gifta sig og börnin fæðast seinna.
  • Ungbarnadauði hefur minnkað mikið, en fóstureyðingum hefur aftur á móti fjölgað.
  •  Fleiri deyja úr krabbameini, en fólk lifir miklu lengur.
  • Fólk flytur núna minna innan landamæra Norðurlanda.
  • Neysla áfengis og kjöts hefur aukist um helming.
  • Megnið af peningum okkar fer nú í húsnæði en fór áður að mestu í mat.
  • Fjöldi nemenda við háskóla á Norðurlöndum hefur meira en fimmfaldast og nú eru kvenstúdentar í meirihluta.
  • Flest störf eru nú í þjónustugreinum. Mjög fáir vinna nú við hefbundin framleiðslustörf miðað við í upphafi sjöunda áratugarins.
  • Bæði skattar og opinber neysla hefur aukist verulega.
  • Fjöldi bifreiða hefur nær fimmfaldast.

Norræna ráðherranefndin gefur ritið út og kostar það 6.999 krónur. Í því er að finna samanburðartölur frá norrænu löndunum fimm, þ.e. Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi og Svíþjóð auk Álandseyja, Færeyja og Grænlands. Þá er ókeypis aðgangur að gagnagrunni sem hefur að geyma ótal tölur um þjóðfélagshætti á Norðurlöndum. Hægt er að nálgast gagnagrunninn og Norrænu hagtöluárbókina 2012 í pdf-útgáfu á www.norden.org.

Norræna hagtöluárbókin 2011 - útgáfa