Meðal fæðuframboð frá 1995 til 2021 á Íslandi var um 1.200 kg á einstakling á ári (vikmörk 400 kg). Skipting matvæla eftir flokkum var að jafnaði 30% grænmeti og plöntuafurðir, 36% fiskur og afurðir úr sjó og vötnum, 28% kjöt og aðrar dýraafurðir af landi og 5% drykkir, deig og aðrar blöndur úr lífmassa.
Ný tilraunatölfræði þar sem gerð er tilraun til að meta framboð matvæla í íslensku hagkerfi er nú birt vef Hagstofu Íslands. Niðurstöðurnar byggja á efnisflæðireikningum í umhverfisreikningum (e. Economy-Wide Material Flow Accounts). Markmiðið með verkefninu er að nota þennan grunn með viðbótarniðurbroti og nýta gögn sem Hagstofa Íslands hefur aðgang að til þess að meta framboð matvæla. Í þessu verkefni er matur skilgreindur samkvæmt evrópskum viðmiðum og notast er við upplýsingar um nýtingu á hráefni sem sóttar voru í rit Matvælastofnunar og Food and Agriculture Organization.
Líkt og búist var við, er reiknað framboð fiskafurða mjög óstöðugt á milli ára. Þetta kemur til vegna óvissu þegar magn er reiknað út frá hráefnisþunga auk þess sem aflatölur og útflutningstölur hafa hér áhrif. Í líkaninu er gerð grunnskipting eftir fisktegundum og er það gert til þess að meta heimtur matvöru. Vonast er til þess að bætt líkan geti minnkað þessa óvissu í framtíðinni. Flokkurinn Drykkir, deig og aðrar blöndur úr lífmassa er einnig með þekktri skekkju þar sem upplýsingar um framleiðslu gosdrykkja og áfengra drykkja voru af skornum skammti í þessari vinnslu.
Í niðurstöðum tilraunatölfræðinnar er matvælaframleiðsla aðgreind eftir upprunalandi hráefnis. Þessi skipting endurspeglar ekki raunverulegt framleiðsluferli matvöru en býður upp á gagnlega aðgreiningu. Sankey flæðirit úr tölum fyrir 2021 sýnir hvernig hægt er að nota þessa skiptingu.
DP táknar framleiðslu úr innlendu hráefni, IP er framleiðsla úr innfluttu hráefni, IMP er innflutningur á tilbúinni vöru og EXP er útflutningur. Framboð matvæla er hægt að greina sjónrænt með því að skoða mismun á innflæði (borðar á vinstri hlið reita) og útflæði (borðar á hægri hlið reita) fyrir flokka. Matarframboð er síðan DP + IMP + IP – EXP.
Fæðusjálfstæði er hægt að meta hér með því að reikna hlutfallið: S = (DP - EXP)/(DP + IP + IMP). Þetta hlutfall nálgast einn ef matvaran kemur að megninu til úr framleiðslu úr innlendu hráefni og framleiðsla er ekki fyrir útflutning. Gildið getur orðið neikvætt ef útflutt vara er framleidd úr innfluttu hráefni, eða ef upplýsingar vantar um innlenda hráefnisöflun.
Flokkurinn F142 er hér neikvæð tala. Í þessum flokki eru ýmiskonar plöntur, skeldýr, krabbadýr og sjóspendýr þar sem upplýsingar um hráefnismagn getur verið ábótavant í gögnum Hagstofunnar. Gögn um innflutning og útfluting á sömu afurðum eru hinsvegar til staðar. Einnig er útflutt vara oft í formi olíu eða pækils, sem gerir hana jafnvel þyngri en hráefnið sjálft. Matarsjálfstæði í flokki F141 er ekki eins hátt og mætti ætla, eða um 0,2. Reikningslega séð er matarframboðið á fiski háð útflutningi og mælist því ekki sjálfstætt, þó að ekki þurfi marga frystitogara til þess að fylla allar kistur íslenskra heimila.
Mælikvarðar hér gætu nýst í umræðunni um matvælaöryggi. Matvælaöryggi er hins vegar flóknara í eðli sínu og byggist á mati á því hversu háð innfluttri vöru raunveruleg framleiðsla er. Ítarlegri lýsing og gögn úr þessu verkefni eru aðgengileg á vef tilraunatölfræðinnar. Þessar tölur ber að skoða með tilliti til þess að verkefnið er enn í þróun og verður vonandi endurbætt í framtíðinni. Allar ábendingar og umræður um efnið eru vel þegnar.