FRÉTT ÝMISLEGT 09. OKTÓBER 2024

Við sérvinnslu Hagstofu Íslands fyrir forsætisráðuneytið um tölur um fjölda starfandi eftir rekstrarformi kom í ljós að opinberar hagtölur um fjölda starfandi í ríkisstofnunum voru ofmetnar þar sem þeir einstaklingar sem voru í fæðingarorlofi frá vinnu voru skilgreindir sem starfsfólk ríkisstofnanna í stað þess að vera skilgreindir í því rekstrarformi sem þeir unnu í áður en þeir fóru í fæðingarorlof.

Í kjölfarið fór af stað vinna á vegum Hagstofunnar sem miðar að því að lagfæra það talnaefni sem um er að ræða en það nær eingöngu til fjölda starfandi eftir rekstrarformum en ekki annars talnaefnis svo sem eftir atvinnugreinum. Fyrir vikið hefur umrætt talnaefni verið tekið úr birtingu á meðan unnið er að leiðréttingu.

Rekstrarform byggir á flokkunarkerfi Skattsins á launagreiðanda svo sem ríkisstofnanir (K1), stofnanir sveitarfélaga (K2) og einkahlutafélög (E).

Hagstofan biðst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta hefur valdið.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.