FRÉTT ÝMISLEGT 10. JÚNÍ 2024

Hagstofa Íslands hefur gefið út skýrslu um gæði stjórnsýslugagna um fatlað fólk undir heitinu Stjórnsýslugögn um fatlað fólk I: Gæði gagna. Skýrslan er byggð á forkönnun sem hafin var í tengslum við Manntalið 2021 en var lokið á liðnu vori með styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu. Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri afhenti Gissuri Péturssyni, ráðuneytisstjóra félags- og vinnumarkaðsráðueytisins, sérstakt eintak af skýrslunni 7. júní 2024.


Fatlað fólk fær aðstoð, stuðning eða þjónustu frá ýmsum ríkisstofnunum. Þar má helst nefna Tryggingastofnun, Sjúkratryggingar og Ráðgjafar- og greiningarstöð ásamt Heyrnar- og talmeinastöðinni og Sjónstöðinni. Auk þessara stofnana veitir félagsþjónusta sveitarfélaga fötluðu fólki víðtækan stuðning til að geta lifað sjálfstæðu lífi á heimili sínu. Gæði gagna hvers þjónustuaðila var metið og athugað hvort þau gætu samanlögð veitt góða heildarmynd af stöðu fatlaðs fólks á Íslandi.

Um er að ræða fyrri skýrslu af tveim en von er á skýrslu sem fjallar um hagskýrslugerð um fatlað fólk og hvað gera þurfi til þess að hún skili sem mestum árangri.

Stjórnsýslugögn um fatlað fólk I — Hagtíðindi

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.