Verðlaunaafhending fór fram í gær í undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar hér á landi sem nefnist Greindu betur. Keppt var í tveimur flokkum, yngri flokki (9.-10. bekkur í grunnskóla) og eldri flokki (1.-2. ár í framhaldsskóla). Verðlaunin veitti Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.
Fyrsta sætið í yngri flokknum hlaut liðið KÁRSNES 13 frá Kársnesskóla í Kópavogi sem framkvæmdi samanburðarrannsókn á veðurfari nokkurra bæja á Íslandi með það fyrir augum að kanna hvort besta veðrið sé í raun á Akureyri á sumrin. Í öðru sæti varð liðið NAMMINAMM frá Austurbæjarskóla í Reykjavík sem kannaði þekkingu ungmenna á verðbólgu og bar saman verðbólgu í dag og árið 2000. Í þriðja sæti varð liðið KRÓNURNAR frá Garðaskóla í Garðabæ sem rannsökuðu áhrif einkaneyslu á verðbólgu.
Liðið STATISTICA frá Verzlunarskóla Íslands bar sigur úr býtum í eldri flokknum en það skoðaði hversu mikil áhrif kórónuveirufaraldurinn hafði á ferðaþjónustuna á Íslandi.
Hagstofa Íslands var gestgjafi keppninnar en hún var styrkt af Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Keppnin er þverfaglegt tilraunaverkefni sem ætlað er að veita unglingum á aldrinum 14 til 18 ára tækifæri til þess að efla hæfni sína í því að nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt og getu sína til þess að taka upplýstar ákvarðanir.
Verðlaunahafar í tölfræðikeppninni Greindu betur ásamt Hrafnhildi Arnkelsdóttur hagstofustjóra.