Verðlaunaafhending fór fram miðvikudaginn 2. apríl í undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar hér á landi sem nefnist Greindu betur. Keppt var í tveimur flokkum, yngri flokki (9.-10. bekkur í grunnskóla) og eldri flokki (1.-3. ár í framhaldsskóla). Verðlaunin veitti Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.
Fyrsta sætið í yngri flokknum hlaut liðið Refirnir frá Sjálandsskóla með verkefnið Áhrif efnahagshrunsins á kaup og kjör Íslendinga. Í öðru sæti var liðið ISKIERKI frá Háaleitisskóla með verkefnið Umferðaslys á Íslandi. Í þriðja sæti var liðið Kársnes 14 frá Kársnesskóla með verkefnið Viltu giftast mér?
Liðið K2ROCKET frá Tækniskólanum bar sigur úr býtum í eldri flokknum með verkefnið Gengi nemenda með erlendan bakgrunn í íslensku skólakerfi. Hagstofa Íslands var gestgjafi keppninnar en hún var styrkt af Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Keppnin er þverfaglegt tilraunaverkefni sem ætlað er að veita unglingum á aldrinum 14 til 19 ára tækifæri til þess að efla hæfni sína í því að nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt og getu sína til þess að taka upplýstar ákvarðanir.