FRÉTT ÝMISLEGT 20. OKTÓBER 2015

Í dag, þriðjudaginn 20. október, á alþjóðadegi hagtalna, hefur Hagstofa Íslands sett í loftið nýjan og endurbættan vef.

Eldri vefur Hagstofu Íslands var kominn talsvert til ára sinna og með þeim nýja tekur andlit Hagstofu Íslands á netinu miklum stakkaskiptum.

Við gerð nýs vefs þarf að huga að ýmsu:

  • Breytingum í notendahópi;
  • Helstu aðgerðum notenda;
  • Skyldum og þjónustu Hagstofu Íslands;
  • Nýjum áherslum í vefhönnun og mörgu öðru.

Öllu þessu þarf að koma fyrir í notendavænu viðmóti þannig að það ætti að vera ljóst að mikil vinna liggur að baki nýja vefnum.

Upplýsingaaðgengi
Aðgangur að upplýsingum er forgangsatriði nýja vefsins. Fyrir notendur sem eru vanir eldri vefnum er þetta mikil breyting. Í stað 14 yfirflokka er efnið í dag flokkað í fimm yfirflokka:

  • Íbúa,
  • samfélag,
  • atvinnuvegi,
  • efnahag og
  • umhverfi

Hver og einn þessara yfirflokka hefur svo 5-10 undirflokka sem snúa sérstaklega að þeim flokki og þar undir geta verið nokkrir talnaefnisflokkar.

Nýja flokkunarkerfið gæti í fljótu bragði virst flóknara en það eldra en nýja valmyndin bætir aðgengi og styttir leiðina að gögnunum. Nú þarf aðeins að velja einn af yfirflokkunum fimm til að fá yfirsýn yfir talnaefnið sem honum heyrir til.



Áhersla var lögð á að bæta leitarvél vefsins. Nýja leitarvélin leitar í öllu efni: fréttum, talnaefni og á vefsíðum.

Talnaefni
Með nýja vefnum hefur kerfi fyrir talnaefni einnig verið uppfært (PX-Web). Viðmótið er mjög svipað og áður en með uppfærslunni er orðið mun auðveldara að endurnýta gögnin. Sem dæmi er nú hægt að vista töflur sem settar hafa verið saman, geyma hlekk þeirra og sækja uppfærð gögn.



Þeir sem vilja nota töflurnar beint í eigin kerfum geta einnig nálgast upplýsingar um hvernig það er gert fyrir hverja töflu.



Með þessu er hægt að tengja mörg ólík kerfi við talnaefni Hagstofu Íslands. Nýi Hagstofuvefurinn notar þessa tengingu sjálfur til þess að teikna upp myndrit á hinum mörgu undirsíðum vefsins. Myndritin eru beintengd við töflur og uppfærast sjálfkrafa þegar ný gögn eru birt. Þetta eitt og sér er mikil framför miðað við fyrri útgáfu Hagstofuvefsins.



Betri hönnun
Það sem flestir munu taka eftir er ný og endurbætt hönnun vefsins. Sífellt fleiri nota farsíma og önnur minni tæki, með minni skjástærðum en borðtölvur, til þess að vafra um netið. Nýi Hagstofuvefurinn er þannig hannaður að hann lagar sig að mismunandi skjástærðum farsíma, spjaldtölva og borðtölva.

Með þessu ætti nýr vefur Hagstofu Íslands að geta þjónað enn fleiri notendum á skilvirkari hátt en áður.

 

 

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.