Gæðaúttekt Evrópska hagskýrslusamstarfsins (ESS) var gerð á Hagstofu Íslands dagana 3. til 6. september 2013. Hún er liður í úttektum sem gerðar eru á opinberri hagskýrslugerð í aðildarríkjum ESB og EFTA-ríkjunum. Úttektin fer þannig fram að matsmenn heimsækja hagstofu hvers ríkis og taka viðtöl við stjórnendur, starfsmenn og viðskiptavini (notendur hagtalna). Úttektin er gerð í þremur áföngum: Hagstofur svara fjölda sjálfsmatsspurninga, matsteymið fer yfir spurningarnar og loks er viðkomandi hagstofa heimsótt og meðal annars leitað til notenda.

Hagstofa Íslands birtir nú skýrslu matsteymisins með niðurstöðum úttektarinnar, en hún inniheldur 24 tillögur til umbóta. Hagstofan hefur þegar gert tillögur um hvernig bregðast skuli við og leggur fram meðfylgjandi aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvaða aðgerðir eru áformaðar og hvenær þeim skuli vera lokið. Umbótunum er ætlað að bæta gæði hagtalna, auka samskiptin við notendur og miða að því að starfsemi Hagstofunnar verði í betra samræmi við meginreglur í evrópskri hagskýrslugerð. Hagstofa Íslands þakkar öllum þeim sem komu að gerð úttektarinnar.

Gæðaúttekt Evrópska hagskýrslusamstarfsins og aðgerðaáætlun Hagstofu Íslands - Hagtíðindi