FRÉTT ÝMISLEGT 01. DESEMBER 2017

Í dag birtir Hagstofa Íslands nýjan vef sem sýnir sögulegar hagtölur um Ísland, þar sem megináhersla er lögð á bætt aðgengi notenda að samræmdum hagtölum sem ná yfir marga áratugi. Tölurnar eru í ýmsum málaflokkum og ná eins langt aftur og frekast er kostur. Vefbirtingin nú er ekki endapunktur því mikið talnaefni til viðbótar verður senn tilbúið og enn aðrar sögutölur bíða frekari úrvinnslu á Hagstofunni.

Hagstofan hefur lengi litið á sögulegar hagtölur sem hluta af þjónustu við notendur og hefur t.d. gefið út Tölfræðihandbók, Landshagi og Hagskinnu sem út kom árið 1997 og hafði undirtitilinn Sögulegar hagtölur um Ísland. Þjóðhagsstofnun gaf einnig út á árunum 1988–1998 rit af sama toga og bar titilinn Sögulegt yfirlit hagtalna. Þar að auki hafa eldri tölur verið birtar á vef Hagstofunnar en þó ekki alltaf í samfelldri tímaröð.

Hinn nýi vefur, Sögulegar hagtölur, samanstendur af úrvali hagtalna sem nú þegar er á vef Hagstofunnar auk þess sem nýjar veftöflur eða endurbættar hafa bæst við. Viðbæturnar eru af ýmsum toga og eru öðrum þræði viðleitni til þess að varðveita samhengi hagtalna þar sem rof hefur myndast vegna breytinga í hagskýrslugerðinni. Til að samræma langar tímaraðir hefur meðal annars verið nauðsynlegt að brúa ýmis bil milli eldri og nýrri flokkunarkerfa svo hægt sé að bera saman gögn milli ólíkra tímabila.

Það er von Hagstofunnar að vefur Sögulegra hagtalna gagnist notendum sem best til að afla sögulegra yfirlita í tölum. Notendum er jafnframt ráðlagt að hafa til hliðsjónar aðrar þær hagtölur sem geta komið þeim að gagni við að sannprófa niðurstöður og afla viðbótarskýringa. Þá skal á það bent að Sögulegar hagtölur á vefsvæði Hagstofunnar innihalda ekki nema að hluta talnaefnið í undirstöðuritinu Hagskinnu. Í Hagskinnu er að finna hagtölur frá ýmsum tímaskeiðum sem ekki eru uppfærðar á Hagstofuvefnum af ýmsum ástæðum, bæði tæknilegum og efnislegum.

Rétt er að benda á að ýmsar hagtölur sem hér birtast eru byggðar á misjafnlega traustum grunni og í sumum tilvikum hefur verið nauðsynlegt að áætla tölur með hliðsjón af öðrum vísbendingum. Líta ber á Sögulegar hagtölur sem þróunarverkefni þar sem tillit þarf að taka til nýrra upplýsinga sem fram eru settar, til dæmis í rannsóknum fræðimanna eða vegna viðbragða notenda. Athugasemdir og ábendingar eru því vel þegnar.

Sögulegar hagtölur - Vefur

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.