Sumarið 2014 samdi Hagstofan við Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn um skönnun og miðlun Hagtíðinda 1916–2003 gegnum vefinn timarit.is en þar er að finna mikið úrval tímarita sem hægt er að lesa með aðgengilegum hætti gegnum samræmt viðmót. Á vefsíðu Hagstofunnar er að finna Hagtíðindi frá 2004 sem var ár mikilla breytinga í miðlun hagtalna. Eins og sakir standa eru Hagtíðindi frá upphafi 1916 til okkar tíma aðgengileg gegnum tvo aðskilda vefi; timarit.is (1916–2003) og hagstofa.is (2004–).

Einnig samdi Hagstofan um skönnun og miðlun ritraðarinnar Þjóðhagsreikningaskýrslur sem Þjóðhagsstofnun gaf út á árunum 1982–1999 og eru öll 18 hefti ritraðarinnar nú aðgengileg á timarit.is.

Þá má til fróðleiks greina frá því að timarit.is veitir aðgang að ritröðinni Skýrslur um landshagi á Íslandi sem út kom á árunum 1855 til 1875 og markar upphaf samfelldrar hagskýrslugerðar um íslensk málefni.

Hagstofa Íslands leitar sífellt leiða til að bæta aðgang almennings að birtum hagtölum sem varða Ísland, bæði í nútíð og fortíð. Á hundrað ára afmæli Hagstofunnar 2014 þótti við hæfi að birta Hagtíðindi í heild á vefnum en útgáfa þeirra hófst árið 1916 með birtingu frétta um verðlag nauðsynjavara, innflutning og útflutning eftir mánuðum, fiskafla, mannfjölda auk tilfallandi og reglubundins efnis af margvíslegu tagi sem ekki var birt á öðrum vettvangi. Útgáfa Hagtíðinda hefur frá fyrstu tíð þjónað þeim tilgangi að birta nýjustu hagtölur hverju sinni. Fyrstu árin komu heftin út annan hvern mánuð og sum árin oftar en árið 1926 varð útgáfa Hagtíðinda mánaðarleg og hélst það óbreytt til ársloka 2003. Ýmislegt af því talnaefni sem birt var í Hagtíðindum er eingöngu að finna þar og því hefur ritröðin mikið varðveislugildi. Eru verðvísitölur frá ýmsum tímum gott dæmi um það.

Tilkoma vefsins gjörbreytti miðlun hagtalna um allan heim. Eftir töluverðan aðdraganda og undirbúning breytti Hagstofan í byrjun árs 2004 útgáfu Hagtíðinda í veigamiklum atriðum til að ná enn betur fram því markmiði að miðla hagtölum til notenda á skjótvirkan og greinargóðan hátt. Í stað eldri útgáfu þar sem safnað var saman í mánaðarrit efni í ýmsum flokkum hagtalna til birtingar mánaðarlega hleypti Hagstofan af stokkunum gjörbreyttri ritröð undir merki Hagtíðinda. Hin endurskoðaða ritröð hefur frá árinu 2004 miðlað gegnum vefinn stuttum heftum um viðfangsefni með fjölbreyttara efni og sveigjanlegri tímasetningu en eldra útgáfuform gat boðið upp á. Þessi breytta ritröð Hagtíðinda hefur frá byrjun árs 2004 verið aðgengileg á vef Hagstofunnar. Eldri árgangar Hagtíðinda hafa þar til nú verið aðgengilegir á prenti að viðbættum vefskrám fyrir árin  2001–2003.

Breytingin á Hagtíðindum hafði víðtækar hliðarverkanir í útgáfumálum Hagstofunnar því nánast öll birting prentaðra hagtalna í ritröðinni Hagskýrslur Íslands (III. útgáfuflokkur) lagðist af að undanskilinni hagtöluárbókinni Landshagir sem komið hefur út í bókarformi í rúman aldarfjórðung. Með þessum skipulagsbreytingum færðist þungamiðja útgáfustarfsemi Hagstofunnar yfir til Hagtíðinda í hinu nýja útgáfuformi, og þá aðallega sem vefmiðils. Því má það teljast stór og kærkominn áfangi í útgáfumálum að Hagtíðindi skuli á hundrað ára afmælisári Hagstofunnar vera öllum aðgengileg á vefnum frá upphafi til okkar tíma.