FRÉTT ÝMISLEGT 23. JANÚAR 2023

Þess er minnst í dag að 50 ár eru liðin frá eldgosinu í Vestmannaeyjum en það hófst þann 23. janúar 1973 og stóð fram til 3. júlí sama ár. Hamfarirnar höfðu mikil áhrif á líf Vestmanneyinga og urðu meðal annars til þess að fjölmargir snéru ekki til baka eftir að þeim lauk. Eldgosið hafði einnig mikil áhrif á atvinnulíf eyjanna og þá jókst flatarmál þeirra um rúmlega tvo ferkílómetra.

Mikil fólksfækkun varð í Vestmannaeyjum í kjölfar eldgossins. Þannig voru 5.303 íbúar skráðir til heimilis í Vestmannaeyjum 31. desember 1972, tæplega mánuði fyrir eldgosið, en ári síðar voru íbúar 4.906. Íbúum hélt áfram að fækka og í lok árs 1974 voru þeir 4.396 áður en þeim fór aftur að fjölga. Þann 1. janúar 2022 voru 4.414 íbúar skráðir til heimilis í Vestmannaeyjum.



Eldgosið olli einnig mikilli röskun á öllu atvinnulífi og átti það sérstaklega við um fiskvinnsluna í Eyjum. Framleiðslutöðvun varð við það að vinnuaflið var ekki tiltækt en einnig kom til eyðilegging á byggingum og tækjum til framleiðslunnar þegar hraunið streymdi niður að Vestmannaeyjahöfn og umhverfi hennar.

Öðru máli gegndi um fiskiskipaflota Vestmanneyinga en þau rúmlega 80 fiskiskip sem þar voru skráð voru gerð út frá öðrum útgerðarstöðum, mest suðvestanlands eins og Þorlákshöfn, Grindavík og fleiri höfnum.

Vefur um sögulegar hagtölur.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.