FRÉTT ÝMISLEGT 14. DESEMBER 2023

Fjallað er um þróun efnahagsmála og launa í yfirstandandi kjarasamningalotu í haustskýrslu Kjaratölfræðinefndar (KTN) sem og uppgjör vegna síðustu kjarasamningalotu árin 2019 til 2022. Niðurstöður skýrslunnar verða kynntar á vef Kjaratölfræðinefndar í dag, fimmtudaginn 14. desember.

Á tímabilinu nóvember 2022 til júlí 2023 hækkaði grunntímakaup um 9,4% en breytingar á grunntímakaupi endurspegla best umsamdar launahækkanir í kjarasamningum. Á tímabilinu hækkaði verðlag um 6,2% og kaupmáttur grunntímakaups jókst því samtals um 3,0% frá nóvember 2022 til júlí 2023. Hjá félögum innan Starfsgreinasambandsins, auk Eflingar og BSRB, hækkaði grunntímakaup meira en hjá iðnfélögum, félögum innan Landssambands íslenskra verslunarmanna, BHM og KÍ. Það skýrist af því að hjá hópum þar sem launastig er að meðaltali lægra skiluðu krónutöluhækkanir hlutfallslega meiri launahækkunum.

Meðallaun í maí 2023 voru hæst á almennum markaði og hjá ríkinu. Grunnlaun og regluleg laun voru hæst á almenna markaðnum en regluleg heildarlaun hæst hjá ríkinu. Ríkið greiddi hæstu miðgildislaun á alla þrjá mælikvarða launa, þau voru næsthæst á almennum markaði og loks hjá Reykjavíkurborg og önnur sveitarfélög.

Í skýrslunni er einnig að finna uppgjör á síðustu kjarasamningslotu sem stóð yfir frá árin 2019 til 2022. Á tímabilinu mars 2019 til nóvember 2022 hækkaði grunntímakaup um 27,2% á heildina litið. Hækkunin var minnst á almenna markaðinum eða 25,9%. Hjá ríkinu hækkaði grunntímakaup um 27,9%. Hækkunin var mest hjá sveitarfélögum þar sem grunntímakaup hækkaði um 35,9% hjá Reykjavíkurborg og 33,7% hjá öðrum sveitarfélögum. Mismunandi hlutfallshækkanir skýrast að hluta til af því að hjá hópum þar sem launastig er að jafnaði lægra skila krónutölubreytingar hlutfallslega meiri launahækkunum.

Þá er í skýrslunni fjallað um þróun helstu efnahagsstærða á síðustu tveimur kjarasamningstímabilum. Hagvöxtur á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2023 var að meðaltali 4,3% en 7,2% árið 2022. Ársverðbólgan lækkaði úr 10,2% í febrúar á þessu ári í 8,0% í nóvember og gera spár ráð fyrir að verðbólga muni fara hægt lækkandi.

Heildarfjöldi starfandi einstaklinga jókst á ný frá ársbyrjun 2021 eftir samdrátt við upphaf kórónuveirufaraldursins en síðan hefur fjölgunin verið mikil í sögulegu samhengi. Þó hægt hafi á fjölgar fólki á vinnumarkaði enn nokkuð hratt og var fjölgun starfandi á síðasta ári mest í einkennandi greinum ferðaþjónustu. Upplýsingar um fjölda lausra starfa og ráðningaráform stjórnenda gefa til kynna að spenna ríki á vinnumarkaði en að dregið hafi úr þeirri spennu á síðustu mánuðum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.