Hagstofa Íslands hefur framleitt smáforrit sem gerir notendum snjallsíma og spjaldtölva kleift að sækja bæklinginn Ísland í tölum og skoða lykiltölur um land og þjóð á handhægan hátt. Þetta er í fyrsta sinn sem Hagstofan miðlar hagtölum með snjallbúnaði.
Hagstofan hefur gefið út bæklinginn Ísland í tölum á ensku síðastliðin 17 ár og hefur hann verið eitt vinsælasta rit stofnunarinnar. Þetta er í fyrsta sinn sem hann er gerður aðgengilegur fyrir snjallsíma og spjaldtölvur. Bæklingurinn hefur átt miklum vinsældum að fagna í ferðaþjónustu, einkum meðal leiðsögumanna og fararstjóra. Efni hans er byggt á Landshögum, árbók Hagstofunnar, og geymir m.a. upplýsingar um veðráttu, umhverfi, mannfjölda, laun, tekjur, vinnumarkað, atvinnuvegi, utanríkisverslun, samgöngur, upplýsingatækni, ferðaþjónustu, verðlag, neyslu, þjóðarbúskap, heilbrigðismál, félagsmál, skóla, menningu og kosningar. Í bæklingnum eru yfir 50 töflur og 15 myndir.
Smáforritið sem Hagstofan gefur út í dag er fyrir Android-búnað og geta áhugasamir sótt sér það að kostnaðarlausu í netverslun Google Play. Einnig má sækja forritið beint úr snjallsímum með því að renna yfir strikamerkið (svonefnt QR-merki) hér að neðan.
Upplýsingaþjónusta Hagstofunnar svarar fyrirspurnum um smáforritið og uppsetningu þess á afgreiðslutíma í síma 528-1100 og á netfanginu upplysingar[hja]hagstofa.is.