FRÉTT ÝMISLEGT 27. OKTÓBER 2010

Íslenskar konur eru fremstar í flokki reyklausra kvenna á Norðurlöndum ásamt sænskum kynsystrum sínum. 84 af hundraði íslenskra kvenna reykja ekki. Finnskar konur reykja hins vegar mest norrænna kvenna, 75 prósent þeirra eru lausar við tóbaksfíknina.

Þessar upplýsingar eru m.a. fengnar úr Norrænu hagtöluárbókinni 2010 sem Norræna ráðherranefndin gefur út í dag, , miðvikudaginn 27. október. Bókin kemur út samtímis í öllum norrænu ríkjunum.

Í bókinni má nálgast norrænar hagtölur sem lýsa því hvað er líkt og ólíkt með norrænu þjóðunum. Þar má m.a. finna eftirfarandi upplýsingar:

  • Íslenskir karlar fá enn lengsta fæðingarorlofið. Árið 2009 tóku íslenskir karlar 34 prósent af sameiginlegu fæðingarorlofi. Sænskir karlar taka einnig virkan þátt í umönnun nýfæddra barna sinna. Þeir tóku 23 prósent af sameiginlegu foreldraorlofi. Í Finnlandi tóku karlar einungis 7 prósent fæðingarorlofs.
  • Verðbólga á Íslandi var 16,3 prósent árið 2009. Það er miklu meiri verðbólga en annars staðar á Norðurlöndum. Þar var hún um 0-2 prósent. Verðhjöðnun mældist í Færeyjum, 1,1 prósent.
  • Alexander er vinsælasta nafnið á nýfædda drengi á Íslandi. Annars staðar á Norðurlöndum eru drengjanöfnin Mikkel (Danmörku), Veeti (Finnlandi) og Lukas (Noregi og Svíþjóð) í tísku.

Norræna hagtöluárbókin 2010 er gefin út af Norrænu ráðherranefndinni, eins og áður segir, og nær samanburðurinn til norrænu ríkjanna fimm, Danmerkur, Finnlands, Íslands, Noregs og Svíþjóðar, svo og sjálfstjórnarsvæðanna Færeyja, Grænlands og Álandseyja. Ókeypis aðgangur er að gagnagrunni með ógrynni upplýsinga um norrænar samfélagsaðstæður. Einnig má nálgast gagnagrunninn og Norrænu hagtöluárbókina 2010 á PDF-sniði á www.norden.org.

Bókin er til sölu í afgreiðslu Hagstofu Íslands að Borgartúni 21a í Reykjavík og hana má einnig panta hér á vefnum.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.