FRÉTT ÝMISLEGT 29. OKTÓBER 2007

Dagana 21.-23. mars fór fram svonefnd jafningjaúttekt (enska: peer review) á Hagstofu Íslands á vegum evrópska hagskýrslusamstarfsins, það er hagstofu ESB (Eurostat) og hagstofa EES ríkja. Úttektin var gerð af sérstakri sendinefnd, skipaðri þremur sérfræðingum, sem heimsótti Hagstofuna og átti fundi með starfsmönnum hennar, fulltrúum annarra stofnana sem fást við hagskýrslugerð, og fulltrúum notenda hagtalna. Einn liður í undirbúningi undir þessa heimsókn var gerð sérstakrar könnunar meðal notenda hagtalna á framboði þeirra, gæðum og notkun.

Jafningjaúttekt þessi byggist á verklagsreglum í evrópskri hagskýrslugerð sem gefnar voru út af framkvæmdastjórn ESB árið 2005 sem tilmæli til aðildarríkja. Hér á landi voru hliðstæðar verklagsreglur gefnar út með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda 9. júní 2006.

Skýrslugerð um niðurstöður þessarar úttektar á Hagstofunni lauk í september 2007 og hefur skýrsla þess efnis verið birt á vef Eurostat. Þar er ennfremur að finna sams konar skýrslur fyrir aðrar hagstofur EES ríkja. 

Helstu niðurstöður og ábendingar
Sendinefndin lýsti ánægju með heimsóknina til Hagstofunnar. Fundir með starfsliði, fulltrúum annarra stofnana sem fást við hagskýrslugerð og notendum hefðu gengið vel og fundarmenn, bæði innanhússfólk og gestir, látið greiðlega í ljós skoðanir sínar á störfum Hagstofunnar. Í lokaskýrslu nefndarinnar lætur sendinefndin í ljós álit á störfum Hagstofunnar. Fram kemur að hve miklu leyti megi telja að skilyrðum verklagsreglna í hagskýrslugerð sé fullnægt og hvar nefndin telji að gera megi betur. Niðurstöður skýrslunnar eru yfirleitt fremur jákvæðar sem hér segir:
  • Nefndin fer lofsamlegum orðum um störf Hagstofunnar og hagtölur hennar.
  • Nefndin lýkur loforði á starfsfólk Hagstofunnar; það sé vel menntað hafi komið vel fyrir á fundunum, sýnt áhuga og verið vel meðvitað um hagstofustörf og vandamál þeim tengd.
  • Nefndin hefur kynnst ýmsu í störfum Hagstofunnar sem ekki er að finna annars staðar og ber vitni um góð vinnubrögð. Þar á meðal má nefna störf notendahópa, tengsl við notendur svo og mikla einstaklingsbundna þjónustu við notendur sem leiti eftir frekari upplýsingum eða leiðbeiningum en það finnur á vefnum. Annað dæmi um góð vinnubrögð er tilvist trúnaðargagnanefndar Hagstofunnar og reglur og umfjöllun um beiðnir um aðgang að einstaklingbundnum gögnum í rannsóknarskyni.

Sem fyrr segir miðaðist jafningjaúttektin við verklagsreglur í evrópskri hagskýrslugerð. Reglur þessar eru fimmtán að tölu en úttektin tók fyrst og fremst til þess hvernig 1.-6. og 15. reglu er fylgt af Hagstofunni. Nefndin fjallaði einnig um meginefni 7.-14. reglu og gerði athugasemdir um fylgni við þær ef sérstakt tilefni þótti til þess. Helstu niðurstöður og ábendingar um hverja reglu fyrir sig eru eftirfarandi:
  1. Faglegt sjálfstæði. Sjálfstæði Hagstofunnar í faglegum efnum virðist hafið yfir vafa, bæði að dómi nefndarinnar og notenda, en ekki er skýrt að það sé formlega tryggt í lögum. Nefndin leggur fram tvær tillögur undir þessum lið; a) að unnið verði að því að færa núgildandi lög um Hagstofuna saman í einn bálk, færa gömul ákvæði til nútímahorfs og lögleiða skýr ákvæði um faglegt sjálfstæði og b) að árlegar verkáætlanir Hagstofunnar verði birtar opinberlega (á vef Hagstofunnar) frá og með 2008.
  2. Heimildir til gagnaöflunar. Þær eru skýrar og fullnægjandi að dómi nefndarinnar.
  3. Nægilegt bolmagn. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að Hagstofan þurfi að auka hagskýrslugerð sína til þess að fullnægja þörfum notenda og uppfylla skyldu um gagnaskil skv. reglugerðum EES. Ef ekki fáist nægjanlegt fjármagn verði Hagstofan að endurskoða forgangsröðun verkefna.
  4. Gæðamál. Nefndin leggur áherslu á að Hagstofan taki upp kerfisbundna gæðastjórnun og gæðaeftirlit í samræmi við gæðayfirlýsingu evrópska hagskýrslukerfisins. Meðal annars skuli taka upp þjálfun í gæðamálum og  auka skjölun og skriflegar lýsingar verkferla. Beita skuli kerfisbundnu eftirliti með gæðum gagna og birta niðurstöður opinberlega, t.d. sem hluta gæðaskýrslna. Þá skuli fá utanaðkomandi sérfræðinga til að annast reglubundið og nákvæmt eftirlit með helstu afurðum.
  5. Trúnaðarkvaðir. Fram kemur að engin dæmi eru um brot á trúnaðarkvöðum og gagnaleynd og fá ef nokkur vandamál séu uppi í þeim efnum. Starfsfólk Hagstofunnar virðist vel að sér um flest það sem snertir þessi atriði. Nefndin bendir á að rétt sé að yfirfara skilyrði um afhendingu gagna til Eurostat þar sem slík afhending gæti farið í bág við kvaðir um trúnað vegna smæðar þjóðfélagsins.
  6. Óhlutdrægni og hlutlægni. Fram kemur í áliti nefndarinnar að enginn viðmælenda hennar hafi dregið óhlutdrægni og hlutlægni Hagstofunnar í efa. Nefndin telur að í sambandi við þessa reglu megi sífellt bæta upplýsingar til notenda á vefnum um uppruna gagna og aðferðir. Þá mælist nefndin til að sem fyrst verði tekin upp kerfisbundin skráning á villum í birtum hagskýrslum og töflum.
  7. Traust aðferðafræði. Nefndin lýsti mjög jákvæðu viðhorfi til þessa þáttar hjá Hagstofunni. Hún benti þó á að gagnlegt gæti verið að Hagstofan kæmi á fót sérstakri einingu til að fást við aðferðafræði, þar með taldar samræmdar skilgreiningar og flokkanir.
  8. Viðeigandi verklag. Nefndin hafði engu við þetta að bæta.
  9. Hófleg svarbyrði. Miklar umræður höfðu orðið um vandamál okkar og annarra smáþjóða vegna þess að lítil þýði geta haft í för með sér að oft þarf að leita til sömu heimila og fyrirtækja um upplýsingar. Í þessu sambandi nefnir sendinefndin að nauðsynlegt sé að endurmeta stærð og tíðni kannana með hliðsjón af þörfum notenda.
  10. Hagkvæmni í rekstri. Nefndin hafði ekkert um þetta að segja.
  11. Notagildi. Nefndin leggur til að notendakannanir verði gerðar reglubundið.
  12. Nákvæmni og áreiðanleiki. Nefndin lagði fram undir þessum lið þá ágætu ábendingu að Hagstofan ætti að taka upp staðlaða aðferð til að bera saman og samræma árstölur og ársfjórðungstölur þar sem þeim er til að dreifa.
  13. Skjótvirkni og stundvísi. Engar sérstakar ábendingar komu fram um þetta efni.
  14. Samræmi og samanburðarhæfni. Engar sérstakar ábendingar komu fram um þetta efni.
  15. Aðgengi og skýrleiki. Nefndin lýsti ánægju með vef Hagstofunnar og gat þess að notendur hefðu einnig verið ánægðir með vefinn, efni hans og framsetningu þess. Lagt var til að bætt yrði á vefinn skrá um tiltæk  en óbirt gögn þótt og sérvinnslur yrðu gerðar opinskárri en nú til að upplýsa notendur sem best um hvað væri í boði. Þá var og lagt til að birt yrði gjaldskrá sem gilti um vinnu við sérstök verkefni eða vinnslur.

________________________

Niðurstaða Hagstofunnar af jafningjaúttekt þessari er á þá leið að margar ábendingar nefndarinnar séu ágætar. Flestar hafi verið fyrirséðar og sumar hverjar raunar runnar frá Hagstofunni sjálfri. Full ástæða sé til að taka þær alvarlega, færa sér þær í nyt og framkvæma þær eftir því sem við á. Að þessu er þegar unnið; drög að nýrri heildstæðri hagstofu- og hagskýrslulögjöf hafa verið lögð fram, kerfisbundin skráning á villum er hafin, unnið er að því að verkáætlun Hagstofunnar fyrir árið 2008 verði þannig úr garði gerð að hana megi birta á vefnum og verið er að hrinda af stað átaki til að færa lýsigögn um hagtölurnar nær notendum en nú er. Hagstofan mun á næstunni birta á vef sínum yfirlit yfir tillögur og ábendingar jafningjaúttektarinnar og viðbrögð sín við þeim.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.