FRÉTT ÝMISLEGT 01. DESEMBER 2015

Landshagir 2015 Landshagir koma nú út í tuttugasta og fimmta sinn með nýjum hagtölum um flesta þætti íslensks samfélags. Ritið tekur jafnan nokkrum breytingum frá ári til árs eftir því sem efniviðurinn gefur tilefni til. Bókin skiptist í 23 kafla og í henni eru 277 töflur, 68 gröf og fjöldi ljósmynda. Aftast er atriðisorðaskrá í stafrófsröð sem auðveldar notendum leit í töflusafninu. Á síðustu árum hefur verið lögð aukin áhersla á myndræna framsetningu efnisins, auk þess sem skýringar fylgja hverjum efniskafla. Sem fyrr er efnið bæði á íslensku og ensku. Hagstofan miðlar miklu magni upplýsinga um flest svið þjóðlífsins og gefur út um 500 fréttatilkynningar árlega. Fer miðlunin að stærstum hluta fram á vef Hagstofunnar en þar er að finna í gagnasöfnum um eitt þúsund töflur. Gagnasöfnin eru öllum opin og leggur stofnunin áherslu á jafnan aðgang allra notenda að gögnum.

Frá upphafi hafa Landshagir verið prentaðir og seldir áskrifendum og í bókaverslunum. Útgáfa þeirra er frábrugðin flestum öðrum útgáfum Hagstofunnar að því leyti að þeir koma út einu sinni á ári og sýna þróun hagtalna yfir lengri tíma. Sala Landshaga hefur verið dræm og tekjur aðeins staðið undir broti af prentkostnaði. Nær öll miðlun fer um vef Hagstofunnar sem nýlega hefur verið endurbættur og þangað geta notendur sótt upplýsingar í snjallsíma og spjaldtölvur sér að kostnaðarlausu. Hagstofan hefur markað þá stefnu að miða alla miðlun sína við vefinn og gera hann sem best úr garði fyrir notendur. Prentun Landshaga hefur því verið hætt og þeir birtast aðeins á vef Hagstofunnar og verða þróaðir þar áfram.

Landshagir 2015

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.