Fyrr á árinu fór fram ítarleg gæðaúttekt á Hagstofu Íslands þar sem markmiðið var að meta hvort hagskýrslukerfi landsins uppfyllti meginreglur evrópskrar hagskýrslugerðar (e. European Code of Practice). Úttektir af þessu tagi eru framkvæmdar reglulega og ná til hagstofa í Evrópu sem aðild eiga að Evrópska hagskýrslusamstarfinu, þar á meðal Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins.
Gæðaúttektin var unnin af teymi óháðra sérfræðinga og var meðal annars lagt mat á fagmennsku og vinnsluhætti Hagstofu Íslands og að hvaða marki stofnunin stæði undir þeim gæðakröfum sem gerðar eru til evrópskrar hagskýrslugerðar.
Lokaskýrsla gæðaúttektarinnar liggur nú fyrir. Þar eru birtar 17 ábendingar um hvað megi betur fara í íslenskri hagskýrslugerð. Af ábendingunum eru tvær sem snúa að því hvernig betur megi framfylgja meginreglunum og 15 umbótatillögur.
Fram kemur í skýrslunni að Hagstofan gegni meginhlutverki í íslensku hagskýrslukerfi, hún njóti mikils trausts og að lög um stofnunina tryggi sjálfstæði hennar og örugga meðhöndlun gagna. Fagmennska einkenni Hagstofuna sem og hátt menntunarstig starfsfólks og mikil aðlögunarhæfni.
Hins vegar sé Ísland fámennt land og stofnunin að sama skapi lítil á evrópskan mælikvarða en skuldbindingar þær sömu og annarra hagstofa á Evrópska efnahagssvæðinu. Fjárveitingar til Hagstofunnar þurfa að gera henni kleift að standa við skuldbindingar Íslands við evrópska hagtölugerð og í því felast miklar áskoranir.
Hagstofan hafi í samræmi við þau lög sem um hana eru sett brugðist við með aukinni nýtingu stjórnsýsluskráa í stað úrtaksrannsókna til að auka hagkvæmni hagskýrslugerðar. Hins vegar sé notkun stjórnsýsluskráa ekki án vankanta til dæmis þegar breytingar eigi sér stað á stjórnsýsluvenjum eða ferli skráninga.
Niðurstöður úttektarinnar benda til þess að almennt sé íslensk hagskýrslugerð, bæði hjá Hagstofunni og öðrum framleiðendum hagtalna á Íslandi, Seðlabanka Íslands og embætti landlæknis, í góðu samræmi við meginreglur evrópskrar hagskýrslugerðar.
Hins vegar sé ekki til staðar samræmt hagskýrslukerfi á landsvísu sem nái til allra innlendra framleiðenda hagtalna auk þess sem skýra þurfi hlutverk aðila. Það er mikilvægt að unnar verið úrbætur á þessum vanköntum og er það úrlausnarefni Hagstofunnar og forsætisráðuneytis þannig að tryggja megi íslensk hagsskýrslugerð standist evrópsk gæðaviðmið að þessu leyti.