Ánægja notenda með Hagstofu Íslands jókst milli áranna 2015 og 2017 úr 6,6 í 7,2 á kvarðanum 0–10 þar sem 0 merkti að öllu leyti óánægð(ur) en 10 merkti að öllu leyti ánægð(ur). Mæling ársins 2017 er sú hæsta frá því að mælingar á ánægju notenda Hagstofunnar hófust árið 2009 en þá var hún 6,7 og 6,9 árið 2013.

Í heild voru ríflega 65% notenda ánægðir með þjónustu Hagstofunnar (völdu 6 eða 7 á 7 punkta kvarða) og rúmlega 55% notenda voru ánægðir með þær hagtölur sem Hagstofan gaf út.

Vinsælustu efnisflokkar hagtalna voru verðlag (37,4%), laun og tekjur (36,8%), og mannfjöldi (36,3%). Fæstir svarenda notuðu byggingavísitölu (0,5%) og hagtölur um dómsmál (1,1%).

Áhrifaþættir á ánægju notenda
Kannað var með aðfallsgreiningu hvað það væri varðandi gæði íslenskra hagtalna sem hefðu helst áhrif á ánægju notenda með annars vegar hagtölur og hins vegar þjónustu Hagstofunnar. Niðurstöðurnar má sjá í töflu 1.

Tafla 1.  Áhrifaþættir þjónustuánægju og ánægju með hagtölur
  Hagtölur Þjónusta Hagstofu
  Hallast. Staðalv. Marktekt Hallast. Staðalv. Marktekt
Uppfylla þarfir 0.31 0.052 p>0,01 0.11 0.058 p>0,05
Nákvæmni hagtalna 0.09 0.059 - 0.19 0.064 p>0,01
Fljót birting 0.07 0.045 - 0.17 0.049 p>0,01
Samanburður tímabila 0.04 0.059 - -0.1 0.065 -
Sambærileg flokkun/skilgr. 0.29 0.071 p>0,01 0.22 0.079 p>0,01
Samanburður milli landa -0.13 0.061 p>0,05 -0.08 0.067 -
Auðvelt að nálgast hagtölur -0.03 0.068 - 0.18 0.075 p>0,05
Auðskiljanlegar útgáfur 0.15 0.068 p>0,05 0.1 0.075 -
Notendavænn vefur 0.1 0.059 p>0,10 0.05 0.065 -

Af áhrifaþáttum á ánægju notenda með opinberar hagtölur var mikilvægast að þær uppfylltu þarfir notenda og að sambærileg flokkun og skilgreiningar væru notaðar fyrir mismunandi hagtölur. Með því að Hagstofan leggi áherslu á þessi tvenns konar gæði gæti stofnunin aukið ánægju notenda með útgefnar hagtölur stofnunarinnar.
Til að auka ánægju notenda með þjónustu stofnunarinnar ætti stofnunin að leggja áherslu á að tryggja nákvæmni hagtalna og birtingu talnanna sem fyrst og jafnframt að beita sambærilegum flokkunum og skilgreiningum fyrir mismunandi hagtölur.

Svarendur
Heildarfjöldi svarenda var 190. Árið 2015 svöruðu 152 spurningalistanum, árið 2013 voru svarendur 191 og árið 2009 var heildarfjöldi svarenda 475.

Af svarendum notendakönnunarinnar sögðust 31% vera stórnotendur hagtalna. Flestir svarenda (67%) voru 46 ára eða eldri. Meirihluti svarenda hafði lokið háskólaprófi, 26% höfðu lokið bakkalársgráðu, 45% meistaragráðu og 12% doktorsgráðu.

Fimmta notendakönnun Hagstofu Íslands
Fimmta notendakönnun Hagstofu Íslands var gerð í febrúar og mars árið 2017. Áður höfðu notendakannanir verið lagðar fyrir árin 2007, 2009, 2013 og 2015. Meginmarkmið könnunarinnar var að kanna hug notenda til stofnunarinnar og mat þeirra á gæðum opinberra íslenskra hagtalna. Með því að fá slíkar upplýsingar getur Hagstofan gert umbætur á starfi sínu og komið enn betur til móts við þarfir notenda sinna.

Könnunin var gerð með vefspurningalista. Til að ná til notenda Hagstofunnar var þátttökubeiðni könnunarinnar send öllum skráðum áskrifendum fréttatilkynninga stofnunarinnar með tölvupósti auk einnar ítrekunar sem send var ellefu dögum eftir að upphaflega þátttökubeiðnin var send.

Sams konar spurningalisti var notaður í könnuninni og var notaður árin 2013 og 2015. Spurningalistinn beinist að því að mæla mat notenda á Hagstofunni út frá meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð (e. Code of Practice) sem eru notaðar við skilgreiningar á gæðum opinberra hagtalna í evrópska hagskýrslusamstarfinu. Meginástæða þess að spyrja um þessar tilteknu meginreglur er að geta nýtt niðurstöður notendakönnunarinnar beint í umbótastarfi Hagstofunnar með því að kanna tengsl milli mats notenda á meginreglunum og ánægju þeirra með opinberar hagtölur. Umbótastarf gæti því beinst að þeim meginreglum sem mestu máli skipta fyrir ánægju notenda. Allar spurningar könnunarinnar voru lagðar fyrir á sjö punkta kvarða, þar sem hæsta og lægsta orðagildi voru merkt orðagildi. Öll svör voru umreiknuð á kvarðann 0–10. Spurningalistinn beindist að meginreglum 11–15 sem eru:

  • 11. Notagildi
  • 12. Nákvæmni og áreiðanleiki
  • 13. Tímanleiki og stundvísi
  • 14. Samræmi og samanburðarhæfni
  • 15. Aðgengi og skýrleiki.