Tilkynnt var í dag um úrslit í Evrópsku tölfræðikeppninni fyrir árið 2022 sem fram fór í vetur en þetta var í fyrsta sinn sem Ísland tók þátt í keppninni. Hagstofa Íslands var gestgjafi undankeppninnar hér á landi en samanlagt tóku yfir 17 þúsund ungmenni þátt í keppninni frá 19 Evrópulöndum.
Keppt var í tveimur aldurshópum, 14-16 ára og 16-18 ára, og hreppti sigurvegarinn í undankeppninni á Íslandi, Ólöf María Steinarsdóttir nemandi við Tækniskólann, annað sætið í eldri hópnum. Fyrsta sætið féll hins vegar í skaut keppanda frá Búlgaríu og sigurvegarinn í yngri aldurshópnum kemur frá Ítalíu.
Framlag Ólafar Maríu var myndskeið um útblástur gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi sem hægt er að horfa á hér fyrir neðan. Fram kemur í umsögn dómnefndar keppninnar að um sé að ræða „frábæra tölfræðilega greiningu á ástæðum mikillar losunar gróðurhúsalofttegunda á mann á Íslandi.“