FRÉTT ÝMISLEGT 07. OKTÓBER 2024

Fyrir helgi undirrituðu Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, og Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri þjónustusamning um miðlun hagtalna um menningu og skapandi greinar við upphaf málþings um verðmæti skapandi greina sem fram fór í Tjarnarbíói 3. október.

Markmiðið með samningnum er að efla hagskýrslugerð um félagsleg og efnahagsleg áhrif þessara greina sem gegna lykilhlutverki í velsæld, atvinnu- og verðmætasköpun. Reglubundnar hagtölur um menningu og skapandi greinar varpa ljósi á þróun atvinnuvegarins og gagnast stjórnvöldum við ákvörðunartöku og stefnumótun.

Með þessu skrefi vilja stjórnvöld og Hagstofan auka sýnileika greinarinnar og efla skilning á mikilvægi menningar og skapandi greina fyrir samfélagið.

„Við fögnum undirritun þessa samnings sem mun gera okkur kleift að varpa betra ljósi á þessa mikilvægu atvinnugrein fyrir atvinnulífið og þjóðfélagið í heild,“ segir Hrafnhildur Arnkelsdóttir hagstofustjóri.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.