FRÉTT ÝMISLEGT 22. DESEMBER 2021

Sögulegar hagtölur

Til eru góðar skýrslur um orkugjafa og orkunotkun Íslendinga frá byrjun 20. aldar til okkar tíma. Fljótlega eftir að raforkuvinnsla hófst í landinu snemma á 20. öldinni var farið að safna skýrslum um vinnslu, sölu og notkun raforku. Framan af birtust þær í Tímariti Verkfræðingafélags Íslands en árið 1939 hófst útgáfa á sérstökum yfirlitsskýrslum um orkumál undir heitinu Rafveitur á Íslandi. Þær voru gefnar út af raforkumálastjóra og Rafmagnseftirliti ríkisins og greina frá afli, straumtegund og spennu allflestra rafstöðva í landinu, almennningsrafstöðva jafnt sem einkastöðva.

Árið 1959 hófst samfelld útgáfa á vegum raforkumálastjóra á tölfræðilegum upplýsingum er nefndist Orkumál og kom út að jafnaði tvisvar á ári. Í tímaritinu birtust ítarlegar tölulegar upplýsingar um framleiðslu, sölu og notkun á orku í landinu auk rannsóknarritgerða á sviði orkumála. Með nýjum orkulögum árið 1967 leysti Orkustofnun Raforkumálaskrifstofuna af hólmi og hefur hún síðan sinnt skýrslugerð um orkubúskap landsmanna, safnað upplýsingum frá öllum raforkuframleiðendum og hitaveitum og fylgst með orkunotkun þjóðarinnar. Hagstofan birtir nú fjórar veftöflur um orkumál sem veita innsýn í langtímaþróun orkubúskaparins á Íslandi. Tölurnar byggja að mestu leyti á upplýsingum sem hægt er að finna á vef Orkustofnunar.

Um 70% raforku með vatnsafli og 30% jarðvarmaafli
Veftaflan Orkuframboð (frumorkunotkun) eftir orkugjöfum 1850-2020 sýnir miklar breytingar í notkun landsmanna á orkugjöfum. Árið 1850 var Ísland landbúnaðar- og veiðimannasamfélag og fram til aldamótanna 1900 byggir töflugerðin að mestu á áætlunum sem eiga uppruna sinn að rekja til sérfræðinga Orkustofnunar að viðbættum áætlunum Hagstofunnar um innanlandsnotkun á fisklýsi til ljósanotkunar. Auk lýsis voru mór, hrís, skógarviður, þari og sauðatað hefðbundnir orkugjafar í bændasamfélaginu gamla áður en kola- og olíunotkun til heimilisnota breiddist út á síðustu áratugum 19. aldar og bændur fóru að virkja bæjarlækinn á fyrri hluta á 20. aldar.

Í veftöflunni Uppsett rafafl og raforkuframleiðsla 1904–2020 eru birtar árlegar tölur í vel yfir heila öld um afl og orkuvinnslu eftir orkugjöfum og á hvern íbúa í landinu. Frá upphafi hefur vatnsaflið verið beislað í þessu skyni en á fyrstu áratugum tuttugustu aldarinnar til ársins 1953 skipti olían töluverðu máli við raforkuframleiðslu (tölur fram til 1920 sundurliða reyndar ekki raforkuframleiðslu eftir orkugjöfum). Olían vék eftir það fyrir endurnýjanlegu eldsneyti, fyrst í stað með aukinni vatnsaflsorku en á síðustu áratugum hefur jarðvarmi verið áberandi orkugjafi líkt og tölurnar í töflunni gefa til kynna. Á síðustu árum hefur skipting raforkuframleiðslunnar verið í grófum dráttum 70% vatnsafl og 30% jarðvarmaafl. Aðrir orkugjafar, eldsneyti og vindorka hafa hverfandi áhrif í þessum tölum.

Tæplega 80% raforku verið nýtt til stóriðju frá 2007
Veftaflan Stóriðja og almenn notkun raforku 1953-2020 sýnir vægi stóriðju í heildarnotkun raforku. Ennfremur er sýnd skipting orkunotkunar eftir flokkum stórnotenda. Frá þeim tíma þegar Kárahnjúkavirkun var tekin í gagnið (2007) hafa nálægt 80% raforkuframleiðslunnar verið nýtt til stóriðju. Það sem flokkast aðallega undir stóriðju samkvæmt meðfylgjandi töflu er framleiðsla á áli, álþynnum og járnblendi auk þess sem þjónusta gagnavera bættist við þennan flokk árið 2012. Ein grein stóriðju lagðist af árið 2003 þegar áburðarverksmiðjan í Gufunesi hætti starfsemi.

Veftaflan Hlutur orkugjafa í hitun húsnæðis 1952-2020 sýnir rúmmál húsnæðis eftir því hvaða orkugjafi er nýttur til upphitunar. Á undanförnum árum sýna tölur að nálægt 90% alls upphitaðs húsnæðis er kynt með jarðvarma og nálægt 7% með raforku. Tölurnar sýna því svart á hvítu að afar hátt hlutfall húshitunar byggir á endurnýjanlegum orkugjöfum. Til samanburðar er vert að hafa í huga að í kringum árið 1970 var hlutfall jarðhita og raforku til húshitunar um 50% á landinu öllu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.