Hinn 12. nóvember síðastliðinn var samþykkt á Alþingi skýrslubeiðni til forsætisráðherra um útreikning á vísitölu neysluverðs og áreiðanleika ýmissa hagtalna.
Meðal annars var óskað eftir upplýsingum um nýja aðferð Hagstofu Íslands við útreikning á húsnæðislið vísitölu neysluverðs, sem felst í því að nota gögn um húsaleigu til að reikna húsaleiguígildi fyrir fasteignir sem eigendur búa í, og hversu vel stofnuninni hafi gengið að áætla helstu hagstærðir á undanförnum fimm árum.
Forsætisráðuneytið óskaði í kjölfarið eftir því að Hagstofan tæki saman upplýsingar og sjónarmið sem nýst gætu við gerð skýrslunnar. Hefur forsætisráðherra nú skilað skýrslunni sem birt var á vef Alþingis fyrr í dag.