Tekjusagan.is hefur verið uppfærð með gögnum frá árinu 2023. Vefur tekjusögunnar var gerður að frumkvæði forsætisráðuneytisins með gögnum frá Hagstofu Íslands og birtist upphaflega árið 2019.
Vefurinn sýnir þróun ráðstöfunartekna, eigna og skulda landsmanna auk heildartekna kynja eftir menntun, aldri, búsetu og hjúskaparstöðu. Allar fjárhæðir tekjusögunnar eru á föstu verðlagi ársins 2023. Hagstofan hefur umsjón með uppfærslu tekjusögunnar.
Analytica bjó til og uppfærir reiknilíkan ráðstöfunartekna sem er til grundvallar og Metadata sér um framsetningu gagnanna og vefforritun.
Meðal annars má nálgast eftirfarandi upplýsingar á vefnum:
- Árið 2023 voru samanlagðar ráðstöfunartekjur án fjármagnstekna fyrir hjón á aldrinum 25-64 ára með 1-2 börn á landinu öllu 1,2 milljónir króna á mánuði.
- Samanlagðar lífeyrissjóðstekjur hjóna eða sambúðarfólks 68 ára eða eldra hækkuðu árið 2023 og hafa aldrei verið hærri að raungildi. Sama gildir um lífeyrissjóðstekjur einstæðra kvenna og karla. Þetta á við hvort sem viðkomandi þáðu einnig greiðslur frá TR eða ekki.
- Eiginfjárstaða fólks batnaði árið 2023 og er almennt talsvert betri á höfuðborgarsvæðinu en hjá fólki búsettu á landsbyggðinni.
- Heildartekjur karla í sambúð voru 33% hærri en einhleypra karla og heildartekjur kvenna í sambúð voru 17% hærri en einhleypra kvenna.