Hinn 1. júlí 2006 taka gildi lög nr. 51/2006 um breytingu á lögum um þjóðskrá og almannaskráningu en samkvæmt þeim flyst Þjóðskráin frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis. Jafnframt öðlast þá gildi lög nr. 50/2006 um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings á þjóðskrá og almannaskráningu frá Hagstofu Íslands til dómsmálaráðuneytis.

Þjóðskránni var komið á fót á árunum 1952-1954 af Hagstofu Íslands í samráði og samstarfi við landlækni, Rafmagnsveitu Reykjavíkur og skattyfirvöld. Þjóðskráin var í upphafi skipulögð sem "vélspjaldskrá fyrir alla landsmenn". Með stofnun hennar var tekin upp ný skipan almannaskráningar, bæði þar sem hún byggðist á þeirri tölvutækni sem þá var hvað nútímalegust, og þar sem með þessu var einum aðila falin yfirstjórn og samræming almannaskráningar í landinu. Áður var hvert sveitarfélag skráningarsvæði út af fyrir sig þar sem tekið var manntal ár hvert en það var ekki samræmt manntölum annarra sveitarfélaga. Með stofnun þjóðskrár varð landið allt eitt skráningarsvæði og fyrir það gerð ein samræmd íbúaskrá. Með þessu var komið í veg fyrir að sami maður væri skráður í tveimur eða fleiri sveitarfélögum samtímis eða að hann væri hvergi á skrá.

Þjóðskráin var fyrst hagnýtt árið 1954, meðal annars til álagningar opinberra gjalda, til kjörskrárgerðar vegna hreppsnefndarkosninga það ár, til gerðar viðskiptamannaskrár Rafmagnsveitu Reykjavíkur en jafnframt gegndi hún lykilhlutverki við berklaeftirlit og útrýmingu berkla. Loks varð hún grundvöllur að skýrslugerð Hagstofunnar um mannfjöldann og breytingar hans. Hagnýting þjóðskrár hefur vaxið í sífellu og hefur hún um langt skeið verið grundvöllur stjórnsýslu í landinu sem sú samræmda skrá sem opinberir aðilar beita við ákvörðun réttinda og skyldna borgaranna. Þá hefur hagnýting hennar verið afar mikilvæg fyrir fyrirtæki og stofnanir í landinu. Það verður seint lögð nóg áhersla á hversu hagkvæmt það hefur verið og hversu mikið öryggi hefur í því falist fyrir stjórnvöld, fyrirtæki og almenning að búa við eina, samræmda skrá yfir alla íbúa landsins.

Þjóðskráin hefur undanfarin ár verið sérstök skrifstofa í Hagstofunni og verður svo áfram innan dómsmálaráðuneytis. Við flutning Þjóðskrár hafa henni verið færð aukin verkefni við útgáfu vegabréfa en að öðru leyti verður starfsemi hennar óbreytt í upphafi. Þjóðskráin verður áfram til húsa að Borgartúni 24 í Reykjavík og verða símanúmer hennar óbreytt. Nýtt veffang Þjóðskrár verður www.thjodskra.is og almennt netfang verður áfram thjodskra@thjodskra.is.