FRÉTT ÝMISLEGT 13. FEBRÚAR 2007

Ráðherra Hagstofu Íslands hefur skipað Rósmund Guðnason skrifstofustjóra efnahagssviðs og Hrafnhildi Arnkelsdóttur skrifstofustjóra þjónustu- og þróunarsviðs Hagstofunnar.

Rósmundur Guðnason er hagfræðingur að mennt. Hann var sérfræðingur á Þjóðhagsstofnun um árabil, var síðan sjálfstætt starfandi í nokkur ár en réðist til Hagstofunnar sem deildarstjóri vísitöludeildar árið 1991. Rósmundur tekur við starfi skrifstofustjóra 1. apríl nk. af Gamalíel Sveinssyni.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir er tölfræðingur að mennt. Hún starfaði sem tölfræðingur um skeið en síðar gegndi hún starfi forstöðumanns Kjararannsóknarnefndar. Hún hefur verið deildarstjóri launa- og kjarmáladeildar Hagstofunnar frá því starfsemi Kjararannsóknarnefndar var færð til Hagstofunnar í ársbyrjun 2005. Hrafnhildur tekur við starfi skrifstofustjóra 14. febrúar en forveri hennar, Eiríkur Hilmarsson, lét af því starfi um sl. áramót.

Störf skrifstofustjóra efnahagssviðs og þjónustu- og þróunarsviðs Hagstofunnar voru auglýst laus til umsóknar í desember sl. og var  umsóknarfrestur til 10. janúar. Alls bárust 63 umsóknir, þar af 20 í starf skrifstofustjóra efnahagssviðs og 43 í starf skrifstofustjóra þjónustu- og þróunarsviðs. Ellefu umsækjendur sóttu um báðar stöðurnar.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.