FRÉTT ÝMISLEGT 28. NÓVEMBER 2016

Hagstofa Íslands hefur gefið út tölfræðihandbók sína, Landshagi, samfleytt frá árinu 1991 en sem kunnugt er var prentútgáfunni hætt í fyrra. Nú hefur Hagstofan tekið ákvörðun um að leggja útgáfuna að fullu niður og er sögu þessarar 25 ára ritraðar þar með formlega lokið.

Víða um lönd hefur sala á hagtöluárbókum dregist verulega saman og er útgáfa Landshaga þar engin undantekning. Breytt miðlun hagtalna er helsta ástæða þess að dregið hefur úr sölu hagtöluárbóka, en Landshagir voru fyrst gefnir út áður en veraldarvefurinn náði vinsældum. Nú miðlar Hagstofan miklu magni upplýsinga á netinu og hefur vefur stofnunarinnar nýverið verið endurbættur. Þar birtast um 500 fréttatilkynningar á ári og gagnasöfn með um eitt þúsund töflum standa þar öllum opin. Notendur geta sótt þessar upplýsingar í snjallsíma og spjaldtölvur sér að kostnaðarlausu og leggur Hagstofan áherslu á jafnan aðgang allra notenda að gögnunum. Flestar fréttatilkynningar og töflur eru birtar bæði á íslensku og ensku.

Það efni sem birt var í Landshögum verður áfram aðgengilegt á vef Hagstofunnar og rennur saman við annað talnaefni sem þar er.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.