Í tilefni aldarafmælis sjálfstæðis og fullveldis Íslands hefur Hagstofan birt fréttir með sögulegu efni sem tengist fullveldistímanum. Hagstofan opnaði vef með sögulegum hagtölum 1. desember 2017 en þar er hægt að finna samfelldar tímaraðir í nokkrum efnisflokkum eins langt aftur og heimildir leyfa.
© Ljósmyndasafn Reykjavíkur
Fullveldisárið 1918 fór stærstur hluti útgjalda íslenskra heimila í matvæli eða um helmingur. Tæpum hundrað árum síðar var hlutfall matvöru af útgjöldum heimilanna komið niður í 13%. Heimili í dag verja hærra hlutfalli útgjalda í húsnæði en árið 1918 þegar helstu útgjaldaliðir voru auk matvöru, fatnaður og eldsneyti. Í dag fellur stærstur hluti útgjalda heimilanna undir önnur útgjöld eða rúmur helmingur neysluútgjalda. Önnur útgjöld eru t.d. ferðir og flutningar, tómstundir og menning, hótel og veitingastaðir og húsgögn, heimilisbúnaður o.fl.
Gögnin fyrir 2013-2016 byggja á fjögurra ára meðaltali á verðlagi ársins 2016.
Haframjöl hefur hækkað en sykur lækkað
Á fullveldistímanum hefur hlutfallsleg hækkun á hrísgrjónum, haframjöli og kartöflum verið mikil á meðan sykur og smjör hafa lækkað um ríflega 55% miðað við fast verðlag ársins 2016.
Útsöluverð nokkurra vörutegunda 1918 og 2016 | |||
Uppreiknað verð 1918 | Verð í maí 2016 |
Prósentu- breyting |
|
Hrísgrjón kg | 288 | 465 | 61,4 |
Haframjöl kg | 242 | 425 | 75,8 |
Kindakjöt, súpukjöt kg | 415 | 831 | 100,2 |
Saltfiskur, þorskur kg | 256 | 1.881 | 633,9 |
Mjólk l | 195 | 139 | -28,8 |
Egg kg | 1.318 | 741 | -43,8 |
Smjör kg | 1.709 | 766 | -55,2 |
Smjörlíki kg | 1.001 | 573 | -42,8 |
Epli kg | 559 | 253 | -54,7 |
Rúsínur kg | 557 | 762 | 36,9 |
Kartöflur kg | 125 | 259 | 108,0 |
Strásykur kg | 313 | 139 | -55,5 |
Uppreiknað verð frá 1918 á verðlagi ársins 2016 miðað við almenna verðlagsvísitölu. |
Mest verðbólga árið 1983
Verðbólga miðað við vísitölu neysluverðs án húsnæðis mældist 37,8% fullveldisárið 1918 en árið 1922 var mesta verðhjöðnun sem mælst hefur á Íslandi, eða 19,7%. Mest verðbólga á fullveldistímanum mældist árið 1983 og var þá 85,7%.