FRÉTT ÝMISLEGT 08. APRÍL 2022

Verðlaunaafhending fór fram í gær í undankeppni Evrópsku tölfræðikeppninnar hér á landi sem nefnist Greindu betur en samtals voru 223 lið skráð til leiks með samtals 670 ungmennum. Keppt var í tveimur flokkum, A-flokki ungmenna á aldrinum 16-18 ára og B-flokki ungmenna á aldrinum 14-16 ára. Verðlaunin veitti Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.

Fyrstu verðlaun í A-flokki hlaut liðið K2 úr Tækniskólanum en liðið rannsakaði leigumarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu. Í öðru sæti varð liðið NO-WAY úr Verzlunarskóla Íslands sem kaus að kanna persónubundna þætti sem hefðu áhrif á skoðanir fólks á flugeldum. Í þriðja sæti varð liðið 4I_8 úr Menntaskólanum í Reykjavík sem skoðaði kjör hjúkrunarfræðinga.

Í fyrsta sæti í B-flokki var liðið STARBOYS úr Garðaskóla í Garðabæ sem kannaði áhrif kórónuveirufaraldursins á hagtölur. Annað sætið hlaut liðið KRÚTTIN úr Austurbæjarskóla í Reykjavík sem rannsakaði útbreiðslu klamydíusmita á Íslandi í evrópskum samanburði. Í þriðja sæti varð liðið LJÓSKURNAR, einnig úr Austurbæjarskóla, sem rannsakaði háskólamenntun kynjanna.

Hagstofa Íslands var gestgjafi keppninnar en hún var styrkt af Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Keppnin er þverfaglegt tilraunaverkefni sem ætlað er að veita unglingum á aldrinum 14 til 18 ára tækifæri til þess að efla hæfni sína í því að nýta upplýsingar á ábyrgan, skapandi og gagnrýninn hátt og getu sína til þess að taka upplýstar ákvarðanir.

Verðlaunahafar í tölfræðikeppninni Greindu betur ásamt Ólafi Hjálmarssyni hagstofustjóra og Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra. Ljósmyndari: Guðmundur Þór.

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.