Hagstofa Íslands vill vekja athygli framleiðenda og notenda opinberra hagskýrslna á gildistöku verklagsreglna í hagskýrslugerð.
Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (ESB) hefur samþykkt Verklagsreglur í evrópskri hagskýrslugerð og gefið þær út sem tilmæli nr. 217/2005. Þessar reglur eru ætlaðar stjórnvöldum ESB og aðildarríkja þess og hagskýrslustofnunum, þ.e. Hagstofu ESB (Eurostat), hagstofum og öðrum stofnunum sem hafa með höndum opinbera hagskýrslugerð í aðildarríkjum ESB.
Hagstofa Íslands tekur ásamt öðrum hagstofum EFTA-ríkjanna fullan þátt í evrópska hagskýrslusamstarfinu á grundvelli EES-samningsins. Tilmælin nr. 217/2005 hafa verið tekin upp í EES-samninginn en í því felst að mælst er til að verklagsreglurnar gildi fyrir íslensk stjórnvöld, Hagstofu Íslands og aðrar opinberar stofnanir sem fást við opinbera hagskýrslugerð hér á landi.
Ákveðið hefur verið að verklagsreglur þessar skuli gilda hér á landi og þeim skuli beita við opinbera hagskýrslugerð, sbr. lög um hagstofu Íslands nr. 24/1913. Verklagsreglurnar voru birtar 10. júlí sl. með auglýsingu nr. 578/2006 í B-deild Stjórnartíðinda.
Verklagsreglurnar hafa að geyma 15 meginreglur sem fjalla um þær kröfur sem gerðar eru til laga, reglna og starfsgrundvallar hagstofa og hagskýrslustofnana, aðferða og verklags við hagskýrslugerðina og til hagskýrslna og miðlunar þeirra. Hverri meginreglnanna fylgja mælistikur góðra vinnubragða sem hafa skal til hliðsjónar við hagskýrslugerðina og mat á því hvort hún standist ákvæði meginreglnanna.
Þess er vænst að verklagsreglum þessum verði beitt við hagskýrslugerð hér á landi og að þær reynist framleiðendum og notendum hagskýrslna gagnleg viðmið við mat á opinberum hagskýrslum, aðferðum og vinnubrögðum við gerð þeirra og birtingu, gæðum þeirra og takmörkunum.
Verklagsreglur í hagskýrslugerð