Tilraunatölfræði


Fatlað fólk á Íslandi

Samantekt

Hagstofan birtir nú helstu niðurstöður manntalsins 2021 þar sem upplýsingum um fatlað fólk hefur verið bætt við gagnagrunninn. Gögnin veita upplýsingar um fatlað fólk sem ekki hafa verið aðgengilegar áður.

Lýsing

Talnaefnið er annars vegar byggt á manntalinu 1. janúar 2021 sem unnið var upp úr stjórnsýsluskrám og hins vegar úr gögnum sem safnað var veturinn 2021-2022 frá sex ríkisstofnunum sem veita öryrkjum og fötluðu fólki fjárhagslega aðstoð, stuðning eða þjónustu. Auk þess voru nýttar árlegar skýrslur félagsþjónustu sveitarfélaganna frá árunum 2015-2020.

Alls eru 19 töflur í talnaefninu sem spanna eftirfarandi þætti: kyn og aldur, erlendan bakgrunn, búsetu og svæðaskiptingu, hjúskaparstöðu, fjölskyldustöðu, heimilisstöðu, menntun, skólagöngu, atvinnuþátttöku, atvinnugrein, tekjur, húsnæðisaðstæður og búsetuform.

Markmið

Gögnin sem hér eru birt í fyrsta skipti eru nýjung í íslenskri hagskýrslugerð. Þau eru heldur ekki fullkomin, því enn vantar upp á fulla þekju á fötluðu fólki – einkum meðal aldraðra. Með því að birta gögnin sem tilraunatölfræði hafa notendur tækifæri til að hafa áhrif á þróun málaflokksins. Ábendingar og athugasemdir má senda á tölvupóstfangið upplysingar@hagstofa.is.

Fatlað fólk á Íslandi

Síðast uppfært: 4. júlí 2024

Með hækkandi aldri eykst tíðni fötlunar en margar færniskerðingar koma fyrst fram á fullorðinsárum eða í framhaldi af eliihrörnun. Enn vantar þó upp á að full vitneskja liggi fyrir um það, einkum meðal aldraðra.



Búsetuform fatlaðs fólks er nokkuð annað en ófatlaðra. Vegna annarrar aldursdreifingar eru hlutfallslega fleiri fatlaðir á öldrunarheimilum en af þeim sem búa sjálfstætt í venjulegu húsnæði er fatlað fólk líklegra til að búa í leiguhúsnæði en aðrir.

Fötlun barna tengist ekki fjárhag foreldranna en eftir því sem árin líða verða hlutfallslega fleiri fatlaðir í lægsta tekjufimmtungnum.



Talnaefni

Fatlað fólk á Íslandi 040724 (xlsx)


Lýsigögn

Fötlun er skilgreind sem langvarandi líkamleg, geðræn eða vitsmunaleg færniskerðing eða skerðing á skynjun sem í samspili við aðrar hindranir geta leitt til einangrunar eða útilokunar frá samfélagslegri þátttöku ef engin aðstoð fæst. Til fatlaðs fólks teljast þau sem fá örorku- eða endurhæfingarlífeyri, hjólastól, sturtu- eða salernisstól á hjólum eða tölvu til tjáskipta hjá Sjúkratryggingum, aðstoð frá félagsþjónustu sveitarfélaga vegna fötlunar, sem og börn sem hafa greiningu hjá Ráðgjafar- og greiningarstöð. Ennfremur fólk með 50 desíbel eða meiri heyrnarskerðingu, 30% eða minni sjónskerpu, eða þau sem höfðu gilt 75% örorkumat mánuði fyrir 67. afmælisdaginn.

Sérstök breyta var skilgreind og tengd við manntalsgögn Hagstofunnar – „Tegund fötlunar“. Breytan greinir bæði fatlað fólk frá öðrum og skiptir fötluðu fólki upp í 5 megintegundir fötlunar eftir færniskerðingu: Hreyfi-, sjón-, heyrnar- og vitsmunaskerðingu auk skerðingar á geðsmunum. Til hagræðis var bætt við sérstakri breytu – „Búsetuform“ – sem byggð er á öðrum breytum í manntalinu.

Gæði stjórnsýslugagnanna var metin í sérstakri skýrslu: Stjórnsýslugögn um fatlað fólk I: Gæði gagna, gefin út 7. júní 2024. Þó svo að megin niðurstaða skýrslunnar sé sú að gögnin séu nýtanleg þarf að setja nokkra fyrirvara sem hér verður gerð grein fyrir:

  1. Gögn um fötluð börn eru byggð á upplýsingum frá Ráðgjafar- og greiningarstöð. Langir biðlistar valda því hins vegar að á hverjum tíma eru mörg fötluð börn ekki talin með. Á árinu 2020 voru 343 börn á biðlista stöðvarinnar, samkvæmt ársskýrslu stofnunarinnar.
  2. Sjúkratryggingar úthluta hjálpartækjum til þeirra sem þurfa óháð aldri. Fram til ársins 2022 sá stofnunin þó ekki um úthlutun hjólastóla til fólks á öldrunarheimilum. Í manntalinu 2021 olli þetta óþekktu vanmati á fjölda hreyfihamlaðra meðal aldraðra á öldrunarstofnunum.
  3. Sjúkratryggingar afhentu gögn um hjálpartæki sem úthlutað var á árabilinu 2017-2020. Enn voru hjólastólar í notkun á manntalsdegi sem afhentir voru fyrir þann tíma sem veldur vanmati á fjölda hjólastólanotenda. Á hinn bóginn voru ekki til reiðu upplýsingar um hver þeirra sem fengu hjólastóla á tímabilinu höfðu skilað þeim fyrir manntalsdag. Það veldur einhverju ofmati á fjölda hjólastólanotenda, þó líklega ekki miklu.
  4. Félagsþjónusta sveitarfélaganna flokkar skjólstæðinga sína eftir tegund fötlunar að beiðni Hagstofunnar. Aðra er hægt að flokka eftir tegund þjónustu, t.d. er augljóst hvers konar færniskerðingu skjól¬stæðingar Sjúkratrygginga, Heyrnar- og talmeinastöðvar eða Sjónstöðvar eiga við að etja. Í öðrum tilvikum var stuðst við sjúkdómsgreiningargögn frá Tryggingastofnun og Ráðgjafar- og greiningarstöð, auk þess sem sjúkdómsgreiningar frá Sjúkratryggingum voru nýttar þegar þeim sleppti. Ekki var hægt að meta gæði þessara flokkana með óháðum upplýsingum. Það er hins vegar gott samband milli gagna frá sveitarfélögunum og annarra aðferða við að meta fötlun þegar um sömu einstaklinga er að ræða.
  5. Vitglöp vegna t.d. Alzheimer eða Parkinsonssjúkdóma eru algeng færniskerðing hjá öldruðu fólki. Eitthvað er um að vitglapa sé getið í gögnum frá Sjúkratryggingum en þær upplýsingar eru þó ekki fulnægjandi. Landlæknisembættið hefur fengið heimild til að stofna heilabilunarskrá sem embættið hefur til þessa ekki getað látið verða af.

Lýsigögn: Flokkun á fötlunar á grundvelli ICD-10 greininga 

Stjórnsýslugögn um fatlað fólk II: Hagskýrslur - Hagtíðindi: Greinargerð (4. júlí 2024)

Stjórnsýslugögn um fatlað fólk I: Gæði gagna - Hagtíðindi: Greinargerð (7. júní 2024, endurskoðuð útgáfa 4. júlí 2024)


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100. Netfang: upplysingar@hagstofa.is