Tilraunatölfræði


Færnispá

Samantekt

Hagstofan hefur framkvæmt langtímaspá um þróun á framboði og eftirspurn vinnuafls eftir menntun og atvinnugreinum. Spáin er birt fyrir árin 2023-2038 og byggir á gögnum um fjölda einstaklinga á vinnumarkaði og gögnum um fjölda unninna tíma. Þessi gögn eru notuð til að þjálfa tölfræðilegt tímaraðalíkan sem svo er notað til að spá fyrir um framboð og eftirspurn vinnuafls.

Lýsing

Færnispáin er að öllu leyti gagnadrifin og er spáin þess vegna að fullu háð leitni þeirra sögulegu gagna sem notuð eru til að þjálfa tímaraðalíkanið sem notað er til að meta spána. Framboðshluti spárinnar byggir á gögnum um fjölda einstaklinga á vinnumarkaði eftir menntun og aldri tímabilið 2006-2022 og eftirspurnarhluti spárinnar byggir á gögnum um fjölda unninna tíma eftir atvinnugreinum og menntun þess einstaklings sem innti starfið af hendi fyrir árin 2008-2022.

Í talnagögnum spárinnar er að finna niðurstöður fyrir 36 menntaflokka og 79 atvinnugreinadeildir. Auk talnagagnanna verður myndræn framsetning á spánni birt í lok sumars 2024. Markmið myndrænu framsetningarinnar er að varpa frekara ljósi á eftirfarandi:

(i) samanburð á framboði og eftirspurn vinnuafls eftir menntunarflokki,
(ii) menntunarsamsetningu atvinnugreina,
(iii) atvinnugreinasamsetningu þeirrar vinnu sem einstaklingar með ákveðna menntun inna af hendi.

Í myndbirtingunni verður áhersla lögð á að setja niðurstöður spárinnar í samhengi við söguleg gögn. Frekari upplýsingar um aðferðarfræði færnispárinnar má finna í Lýsigögnum.

Markmið

Markmið færnispárinnar er að varpa ljósi á þróun á vinnumarkaði hvað varðar menntun vinnuafls. Sérstaklega er leitast við við því að sýna ójafnvægi á milli framboðs og eftirspurnar vinnuafls eftir menntunarflokkum.

Færnispá 2023-2038

Síðast uppfært: 10. júlí 2024

Hagstofan birtir nýja færnispá fyrir vinnumarkaðinn fyrir árin 2023-2038. Spáin gefur upplýsingar um áætlaða þróun framboðs og eftirspurnar vinnuafls eftir menntunarflokkum og atvinnugreinum. Hún er hér birt sem talnaefni, en til viðbótar því mun myndræn framsetning spárinnar verða birt í lok sumars. Lýsingu á aðferðafræði spárinnar er að finna í lýsigögnum hér að neðan.

Í línuritinu hér að neðan má sjá heildarframboð og heildareftirspurn eftir vinnuafli, bæði sögulegar tölur og spá. Í meðfylgjandi talnaefni má finna niðurstöður eftir menntunarflokkum og atvinnugreinum.



Talnaefni

Færnispá 100724 (xlsx)


Lýsigögn

Færnispá - Lýsigögn 


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100. Netfang: upplysingar@hagstofa.is