Tilraunatölfræði
Losun frá hagkerfi Íslands eftir mánuðum - tt
Losun frá hagkerfi Íslands eftir mánuðum
Samantekt
Hagstofa Íslands birtir nú upplýsingar um losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands eftir árum og mánuðum frá 2016 til og með síðasta ársfjórðungi. Um er að ræða losun hitunargilda (CO2 ígildi) sem er vegin hitunaráhrif allrar losunar gróðurhúsalofts. Hagkerfi Íslands er hér skipt niður eftir aðal atvinnugrein rekstraraðila í 64 flokka en einnig er bætt við þremur flokkum vegna reksturs heimila í landinu. Til þess að teljast inn í hagkerfisreikninga þarf fyrirtækið að vera með skráða kennitölu eða vera með aðsetur hérlendis. Rekstur íslenskra fyrirtækja erlendis telst því með inn í reikninginn svo fremi að kostnaður við rekstur og kaup efna (og tekjur) fari um íslenskt hagkerfi.
Lýsing
Þessar tölur eru byggðar á loftslagsbókhaldi hagkerfisins (AEA bókhaldi) sem Hagstofan gefur út árlega í samræmi við reglur Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. AEA bókhaldið byggir meðal annars á loftslagsskýrslu Íslands (NIR), sem Umhverfisstofnun skilar til loftslagsráðs Sameinuðu þjóðanna, og orkubókhaldi Íslands sem Orkustofnun skilar til Alþjóða orkuráðsins (IEA). Þessi síðarnefndu uppgjör hafa hins vegar takmarkaðan tímanleika þar sem um er að ræða víðtæka gagnasöfnun hjá rekstraraðilum. Hagstofunni er hins vegar kleift að framlengja tímaröð gagnanna með því að nota aðrar hagtölur og upplýsingar úr framleiðsluuppgjörum, viðskiptajöfnuði, efnisflæðireikningum og annarri fyrirtækjatengdri tölfræði. Í sömu vinnslu felst einnig niðurbrot á losun á gróðurhúsalofti eftir mánuðum þar sem fyrirtækjatölfræði er oftast nær mánaðartengd.
Markmið
Aukin tíðni á birtingu upplýsinga um losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands er ætlað að stuðla að upplýstri umræðu í þjóðfélaginu um loftslagstengd mál samhliða áhrifum Covid-19-faraldursins á hagkerfið.
Losun frá hagkerfinu dróst saman um 16,3%
Síðast uppfært: 8. febrúar 2021
Losun hitunargilda (CO2-ígildi) frá hagkerfi Íslands var 5.505 kílótonn árið 2020 samkvæmt bráðabirgðatölum sem er 16,3% minni losun en 2019 þegar hún var 6.575 kílótonn. Árslosun 2019 var einnig 13,5% minni en árslosun 2018 (7.602 kílótonn) en 2018 var nokkuð áberandi hámarksár í komu ferðamanna til Íslands. Árið 2019 hætti eitt flugfélag rekstri og 2020 hefur einkennst af áhrifum kórónuveirufaraldursins (Covid-19) á flugsamgöngur og einkennandi greinar ferðaþjónustu.
Losun á fjórða ársfjórðungi 2020 (1.153 kílótonn) var 25,5% minni en losun á sama ársfjórðungi 2019 (1.547 kílótonn). Losun vegna aksturs heimilisbíla mældist 7% minni á fjórða ársfjórðungi 2020 miðað við 2019 og losun vegna flugrekstrar 36,3% minni. Losun frá iðnaði var hins vegar 6,8% meiri en á fjórða ársfjórðungi 2020 miðað við 2019.
Talnaefni
Losun gróðurhúsalofts frá hagkerfi Íslands eftir mánuðum og fjórðungum 080221 (xlsx)
Lýsigögn
Þessar tölur eru fengnar úr nokkuð víðtæku líkindalíkani. Líkanið er í stöðugri þróun og geta tölurnar því breyst á milli útgáfa. Vegna aðferðarinnar sem notuð er til þess að byggja upp líkanið má búast við því að nýrri tölur breytist meira en eldri tölur.
Forsendur líkansins:
- Gert er ráð fyrir að útgefnar tölur í AEA-reikningunum, fyrir þau ár þar sem niðurstöður losunarskýrslu Íslands og orkubókhalds Íslands liggja fyrir, séu réttar. Líkanið sem byggt er upp verður því að fá sömu niðurstöðu á árlegri losun út frá forsendum sem notaðar eru.
- Líkanið byggir á línulegum föllum sem reikna losun gróðurhúsalofts út frá mældri virkni hjá hverjum fyrirtækjaflokki fyrir sig. Virkni er hér mæld með því að taka tillit til:
- Fjölda og tegunda farartækja sem skráðir eru í rekstri fyrirtækja eða heimila, svo sem bíla, flugvéla og skipa. Eignarskráning miðast við febrúar og ágúst á hverju ári.
- Magns útfluttrar framleiðsluvöru, svo sem málmum, fiski og sorpi til endurvinnslu.
- Magns innflutts hráefnis, magns landaðs afla og fjölda sláturdýra og bústofns á hverju ári.
- Veltu fyrirtækja samkvæmt virðisaukaskráningu.
- Fjölda starfandi hjá fyrirtækjum.
- Fjölda ferðamanna, s.s. fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll og gestafjölda á hótelum.
- Ef engin virkni mælist á engin losun sér stað nema þegar kemur að losun vegna meðhöndlunar sorps og frá landbúnaði. Í þessum tilfellum þarf að áætla birgðastöðu (t.a.m. úrgang sem er búið að urða og er að undirgangast loftfirrt niðurbrot) eða aðra orkuþörf lifandi dýra fyrir hvern mánuð.
Vægi hvers virkniþáttar er mjög mismunandi eftir atvinnuflokkum en á allnokkrum stöðum voru skorður settar á það hvort að mælingar ættu að hafa áhrif á losun. Þannig var t.d. ekki gert ráð fyrir að fjöldi ferðamanna hefði áhrif á losun vegna framleiðslu málma. Losun var einnig reiknuð með því að skoða beina eldsneytisnotkun og losun vegna framleiðslu í aðskildum reikningum.
Innbyggðar/þekktar skekkjur í líkaninu
Fyrirtæki skrá veltu, útflutning framleiðsluvara og löndun afla eftir að losun gróðurhúsalofts á sér stað. Að sama skapi á innflutningur á hráefni sér stað áður en varan er notuð í framleiðslu (sem losar gróðurhúsaloft). Hér var reynt að leiðrétta þennan mismun, sérstaklega þar sem innflutt eða útflutt magn var mjög óreglulegt. Ef vöruflæði er nokkuð jafnt á milli mánaða var engin tilfærsla gerð. Þetta gæti hins vegar valdið skekkju á milli mánaða. Þessar skekkjur jafnast aðeins út ef litið er á ársfjórðunga í stað mánaða.
Í sumum tilfellum eru fyrirtæki skráð í atvinnugreinar sem eru aðrar en sú atvinnugrein sem stendur að baki losun gróðurhúsalofts. Einnig kemur fyrir að fyrirtæki skipti um atvinnugrein eða kennitölu á miðju ári. Slíkt getur valdið óvissu í framleiðsluuppgjöri sem hefur áhrif á losunartölur.
Fyrirtæki geta endurnýjað búnað sem dregur úr losun. Endurnýjun í bílaflota, skipaflota eða flugvélaflota ætti að koma fram hér, en þar sem skráning er aðeins skoðuð tvisvar á ári getur verið bið á því að slíkar fjárfestingar komi fram. Ef um er að ræða hreinsunarbúnað sem er ekki sjálfvirkt skráður kemur það sennilega ekki fram í tölunum fyrr en áhrifa gætir í loftslagsbókhaldi Íslands.
Loftslagsbókhald Íslands og IEA orkubókhaldið getur verið leiðrétt á milli ára. Slík leiðrétting getur haft umtalsverð áhrif á tölurnar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278. Netfang: Thorsteinn.Adalsteinsson@hagstofa.is