Tilraunatölfræði


Matarflæði um hagkerfi Íslands

Samantekt

Magn matvæla sem fer um hagkerfi Íslands er ekki auðfundin stærð. Þá ekki síst þar sem innflutt matvæli eru oft á formi sem tilbúið er til neyslu á meðan lítið er vitað um raunverulegt magn matvæla sem framleitt er úr íslensku og innfluttu hráefni. Íslenskt hráefni, t.a.m. fiskur, er í mörgum tilfellum ekki ætlaður til markaðssetningar á íslenskum matvælamarkaði þó svo að hráefnisnýting sé góð.

Mat á matarflæði, og ekki síst sjálfbærni hagkerfisins í matvælaframleiðslu, getur nýst við greiningu á matarsóun og bætt ákvarðanatöku í þeim efnum.

Hagstofa Íslands býr yfir miklu magni upplýsinga varðandi framleiðslu, uppskerutölur, innflutning og útflutning á ýmsum vörum. Stuðst er við þessar upplýsingar ásamt grófu mati á því hvað telst vera matur til þess að draga upp mynd af flæði matvæla um hagkerfið.

Lýsing

Verkefnið byggir á flokkun efnis samkvæmt efnisflæðireikningum hagkerfisins (e. Economy-wide Material Flow Account). Tölur um uppskeru og sláturtölur ásamt tölum úr ráðstöfunarskýrslum Fiskistofu eru enn fremur notaðar til þess að leggja mat á öflun hráefna á Íslandi. Þegar hráefnistölur liggja fyrir er útbúið líkan um heimtur matvæla úr viðkomandi hráefni. Í þeim efnum er stuðst við greinar frá MAST og FAO.

Markmið
  1. Markmiðið er að þróa tölfræði: Uppbygging líkans ætti ætíð að vera samvinnuverkefni. Til þess að svo megi verða eru hér birtar niðurstöður á formi sem er ítarlegra en væri gert í almennri tölfræðiútgáfu. Ásamt þessu er nánari lýsing á undirliggjandi aðferðarfræði í reikningum. Þessari tölfræði er ætlað að svara spurningum á borð við:
    1. Hversu mikið af matvælum er framleitt á Íslandi?
    2. Hversu stór hluti matvæla „verður eftir“ í kjölfar útflutnings?
    3. Hversu stór hluti af þeim matvælum sem eftir verða er framleiddur úr íslensku hráefni?
  2. Nýta upplýsingar sem Hagstofu Íslands býr yfir til þess að útbúa efri mörk matvælamagns sem nýst gæti sem viðmið við útreikning á matarsóun.

Matarframboð að jafnaði um 1.200 kg á einstakling

Síðast uppfært: 9. desember 2022

Meðalmatarframboð á Íslandi reiknast að jafnaði 1.200 kg á einstakling (vikmörk upp á 400 kg á einstakling) eða um fimmfalt það magn sem gert er ráð fyrir að fullorðinn einstaklingur neyti á ári. Skipting matvæla eftir flokkum er að jafnaði 30% í flokki F11 - Grænmeti og plöntuafurðir, 36% í F14 - Fiskur og afurðir úr sjó og vötnum og 28% í F15 - Kjöt og aðrar dýraafurðir af landi. Þá flokkast 5% matvæla sem F16 - Drykkir, deig og aðrar blöndur úr lífmassa.

Talnaefni

Matvælaflæði um hagkerfið - 9122022 (xlsx)


Lýsigögn


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278. Netfang: Thorsteinn.Adalsteinsson@hagstofa.is