Tilraunatölfræði
Matarflæði um hagkerfi Íslands-tt
Matarflæði um hagkerfi Íslands
Samantekt
Magn matvæla sem fer um hagkerfi Íslands er ekki auðfundin stærð. Þá ekki síst þar sem innflutt matvæli eru oft á formi sem tilbúið er til neyslu á meðan lítið er vitað um raunverulegt magn matvæla sem framleitt er úr íslensku og innfluttu hráefni. Íslenskt hráefni, t.a.m. fiskur, er í mörgum tilfellum ekki ætlaður til markaðssetningar á íslenskum matvælamarkaði þó svo að hráefnisnýting sé góð.
Mat á matarflæði, og ekki síst sjálfbærni hagkerfisins í matvælaframleiðslu, getur nýst við greiningu á matarsóun og bætt ákvarðanatöku í þeim efnum.
Hagstofa Íslands býr yfir miklu magni upplýsinga varðandi framleiðslu, uppskerutölur, innflutning og útflutning á ýmsum vörum. Stuðst er við þessar upplýsingar ásamt grófu mati á því hvað telst vera matur til þess að draga upp mynd af flæði matvæla um hagkerfið.
Lýsing
Verkefnið byggir á flokkun efnis samkvæmt efnisflæðireikningum hagkerfisins (e. Economy-wide Material Flow Account). Tölur um uppskeru og sláturtölur ásamt tölum úr ráðstöfunarskýrslum Fiskistofu eru enn fremur notaðar til þess að leggja mat á öflun hráefna á Íslandi. Þegar hráefnistölur liggja fyrir er útbúið líkan um heimtur matvæla úr viðkomandi hráefni. Í þeim efnum er stuðst við greinar frá MAST og FAO.
Markmið
- Markmiðið er að þróa tölfræði: Uppbygging líkans ætti ætíð að vera samvinnuverkefni. Til þess að svo megi verða eru hér birtar niðurstöður á formi sem er ítarlegra en væri gert í almennri tölfræðiútgáfu. Ásamt þessu er nánari lýsing á undirliggjandi aðferðarfræði í reikningum. Þessari tölfræði er ætlað að svara spurningum á borð við:
- Hversu mikið af matvælum er framleitt á Íslandi?
- Hversu stór hluti matvæla „verður eftir“ í kjölfar útflutnings?
- Hversu stór hluti af þeim matvælum sem eftir verða er framleiddur úr íslensku hráefni?
- Nýta upplýsingar sem Hagstofu Íslands býr yfir til þess að útbúa efri mörk matvælamagns sem nýst gæti sem viðmið við útreikning á matarsóun.
Matarframboð að jafnaði um 1.200 kg á einstakling
Síðast uppfært: 9. desember 2022
Meðalmatarframboð á Íslandi reiknast að jafnaði 1.200 kg á einstakling (vikmörk upp á 400 kg á einstakling) eða um
fimmfalt það magn sem gert er ráð fyrir að fullorðinn einstaklingur neyti á ári. Skipting matvæla eftir flokkum er
að jafnaði 30% í flokki F11 - Grænmeti og plöntuafurðir, 36% í F14 - Fiskur og afurðir úr sjó og vötnum og 28% í F15 -
Kjöt og aðrar dýraafurðir af landi. Þá flokkast 5% matvæla sem F16 - Drykkir, deig og aðrar blöndur úr lífmassa.
Talnaefni
Matvælaflæði um hagkerfið - 9122022 (xlsx)
Lýsigögn
- Frétt frá 9. desember 2022
- Nánar um aðferðarfræði
- Skýrsla starfshóps hjá stjórnarráði Íslands um neyðarbirgðir
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1278. Netfang: Thorsteinn.Adalsteinsson@hagstofa.is