Tilraunatölfræði


Staðvirt útgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi

Samantekt

Hér er birt talnaefni um staðvirt útgjöld erlendra ferðamanna á Íslandi. Byggir talnaefnið á niðurstöðum ferðaþjónustureikninga sem Hagstofan birtir árlega og má því líta á sem viðbót við þær niðurstöður sem þar eru birtar. Gögnin gefa vísbendingu um almenna magn- og verðlagsþróun innan ferðaþjónustugeirans og má nota til að álykta um hlutdeild einstaka atvinnugreinaflokka í bæði magn- og verðbreytingum geirans í heild sinni.

Lýsing

Talnaefnið byggir á niðurstöðum ferðaþjónustureikninga og gögnum um verðþróun ýmissra neysluvara samkvæmt vísitölu neysluverðs. Birt er keðjutengt verðmæti útgjalda erlendra ferðamanna á Íslandi sem og útgjöld til einstaka atvinnugreinaflokka á föstu verðlagi. Stuðst er við sömu atvinnugreinaflokkun og í ferðaþjónustureikningum. Þá er einnig birt verðvísitala sem lýsir almennri verðlagsþróun þeirra neysluvara sem erlendir ferðamenn neyta á Íslandi. Að lokum er birt hlutdeild einstaka atvinnugreinaflokka í hlutfallslegri breytingu keðjutengds verðmætis útgjalda erlendra ferðamanna sem og í fyrrnefndri verðvísitölu.

Markmið

Með birtingunni er ætlunin að varpa frekara ljósi á efnahagslega þróun ferðaþjónustu á Íslandi. Gögnin gefa mælikvarða á raun- og verðlagsþróun geirans og geta því stuðlað að upplýstri umræðu um stöðu og framþróun ferðaþjónustu á Íslandi.

Staðvirt útgjöld erlendra ferðamanna

Síðast uppfært: 27. september 2024

Hagstofa Íslands birtir nú staðvirt útgjöld erlendra ferðamanna á tímabilinu frá 2009 til 2023. Keðjutengt verðmæti útgjalda erlendra ferðamanna hefur almennt þróast í takt við útgjöld á verðlagi hvers árs. Á nýliðnum árum hefur keðjutengda verðmætið aftur á móti vaxið heldur hægar en útgjöld á verðlagi hvers árs.


Þróunin skýrist af því að verðlag í ferðaþjónustugeiranum hefur farið hækkandi í kjölfar kórónuveirufaraldursins.

Þessa þróun má glögglega sjá í verðvísitölu útgjalda erlendra ferðamanna á Íslandi. Samkvæmt henni hefur almennt verðlag í ferðaþjónustugeiranum vaxið um rúm 20% frá árinu 2019 til 2023. Þróunin er áþekk þeirri sem átti sér stað á árunum 2009 til 2012 en þá óx almennt verðlag í geiranum um tæp 20%. Aftur á móti stóð verðlag nokkurn veginn í stað á árunum 2012 til 2019.

Þegar vöxtur keðjutengds verðmætis útgjalda erlendra ferðamanna er brotinn niður á einstaka atvinnugreinaflokka sést að á síðustu árum hefur gistiþjónusta orsakað mestan vöxt (samanborið við mestan samdrátt árið 2020) í keðjutengdu verðmæti útgjalda erlendra ferðamanna. Þá hafa farþegaflutningar með flugi, ferðaskrifstofur og veitingaþjónusta haft veruleg áhrif á vöxt keðjutengda verðmætisins. Þessir fjórir atvinnugreinaflokkar orsökuðu um 72% vaxtarins í keðjutengda verðmætinu árið 2023.

Sé litið til vaxtar verðvísitölu útgjalda erlendra ferðamanna hafa farþegaflutningar með flugi vegið þyngst síðustu tvö ár. Þar á eftir koma gistiþjónusta, aðrar atvinnugreinar og ferðaskrifstofur.


Talnaefni

Tilraunatölfræði: Staðvirt útgjöld erlendra ferðamanna 270924 (xlsx)


Lýsigögn


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100. Netfang: thjodhagsreikningar@hagstofa.is