Tilraunatölfræði


Tímarannsókn

Samantekt

Rannsóknir á tímanotkun gefa til kynna með hvaða hætti íbúar nýta tíma sinn. Því geta niðurstöður slíkra rannsókna verið mikilvæg heimild fyrir stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Hagstofa Íslands vann í samstarfi við forsætisráðuneytið að undirbúningi tímarannsóknar fyrir Ísland. Hagstofan sinnti gagnaöflun, úrvinnslu og miðlun niðurstaðna. Gagnaöflun fór fram í nóvember 2023 en fyrstu niðurstöður voru birtar í september 2024.

Lýsing

Hagstofa Íslands framkvæmdi tímarannsókn í nóvember 2023. Um var að ræða úrtaksrannsókn þar sem kannað var með hvaða hætti fólk búsett á Íslandi nýtti tíma sinn. Tímanotkun var flokkuð í 27 flokka: 1) Vinna fyrir launum eða afla tekna á annan hátt, 2) Útbúa eitthvað fyrir heimilið eða fjölskylduna, 3) Var að hjálpa fólki sem er ekki skylt mér eða í sjálfboðastarfi, 4) Elda mat, undirbúa eða ganga frá eftir máltíðir fyrir heimilið eða fjölskylduna, 5) Þrífa eigið heimili eða heimili í eigu fjölskyldunnar (að innan eða utan), 6) Sinna viðhaldi eða viðgerðum á heimilinu, húsgögnum eða farartækjum heimilisins, 7) Þvo þvott eða gera við föt, 8) Skipuleggja heimilisstörf eða verk annarra í fjölskyldunni, 9) Greiða reikninga, fylla út umsóknir eða aðra pappírsvinnu fyrir heimilið eða fjölskylduna, 10) Sinna gæludýri á heimilinu eða í eigu fjölskyldunnar, 11) Versla vörur fyrir heimilið eða fjölskylduna, 12) Skoða vörur fyrir heimilið eða fjölskylduna, 13) Annast eða aðstoða barn á heimilinu eða í fjölskyldunni, 14) Annast eða aðstoða fullorðinn einstakling á heimilinu eða í fjölskyldunni, 15) Stunda nám, 16) Var í félagsskap eða að spjalla við einhvern; 17) Tók þátt í samfélagslegum viðburði, sinnti samfélagslegri skyldu eða trúariðkun, 18) Var á skemmtun, menningarlegum viðburði eða íþróttaviðburði, 19) Stunda áhugamál, leiki eða aðra dægradvöl, 20) Stunda íþrótt, líkamsrækt eða hreyfingu, 21) Lesa til afþreyingar, 22) Horfa á sjónvarp, hlusta á tónlist, útvarp eða hlaðvarp, 23) Sofa, 24) Borða eða drekka, 25) Sinna persónulegu hreinlæti eða umhirðu, 26) Ferðast á milli staða, 27) Annað.

Svarhlutfall rannsóknarinnar reyndist afar lágt og því var ekki mögulegt að birta niðurstöður nema fyrir eina bakgrunnsbreytu fyrir sig og með því að sameina tímanotkunarflokkana í sjö athafnaflokka.

Niðurstöðurnar gefa til kynna með hvaða hætti mismunandi hópar á Íslandi nýta tíma sinn.

Markmið

Markmið tímarannsóknarinnar er að fá upplýsingar um það í hvaða athafnir íbúar Íslands nýta tíma sinn. Þannig ætti einnig að vera hægt að skoða hvernig mismunandi hópar nýta sinn tíma, til dæmis kynin, aldurshópar, tekjuhópar, mismunandi heimilisgerðir og svo framvegis. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar nýtast fyrir stefnumótun, áætlanagerð, almenna samfélagsumræðu og til frekari rannsókna.

Tímarannsókn Hagstofu Íslands

Síðast uppfært: 27. september 2024

Hagstofa Íslands framkvæmdi tímarannsókn í fyrsta sinn í nóvember 2023. Var undirbúningur rannsóknarinnar unninn í samvinnu við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið en Hagstofan sá um gagnasöfnun, úrvinnslu, greiningu og miðlun niðurstaðna.

Meðal niðurstaðna var að fólk á aldrinum 18 ára og eldri notaði um 3,3 klukkustundir að meðaltali í ýmis konar afþreyingu, meðal annars horfa á sjónvarp, hlusta á tónlist, stunda áhugamál eða lesa sér til afþreyingar.

Meðalmanneskjan svaf að jafnaði í tæpar níu klukkustundir í nóvember og notaði um eina klukkustund til að sinna öðrum, hvort sem það var barn á heimilinu, annar fullorðinn einstaklingur eða hjálpa óskyldum eða í sjálfboðastarfi.

Niðurstöðurnar bentu til þess að konur finndu fyrir heldur meiri streitu en karlar eða að meðaltali 4,4 stig á kvarða frá 0 – 10 fyrir karla en 5,18 stig fyrir konur. Helstu streituvaldar kvenna voru vinnan (25,2% valdi hana sem helsta streituvald) og fjárhagslegar áhyggjur (17,3%) en á meðal karla voru það fjárhagslegar áhyggjur hjá 31,2% og svo vinnan hjá 22,2%. Mikilvægt er að hafa í huga að svarhlutfall rannsóknarinnar var mjög lágt eða aðeins um 17,7%.



Kyn

Að jafnaði notuðu karlar heldur meira af sínum tíma í nám, vinnu, ferðalög og annað eða um fimm klukkustundir á meðan konur notuðu um fjóra og hálfa klukkustund í sömu erindagjörðum daglega. Konur voru öllu virkari í samfélagsþátttöku en karlar og vörðu þannig um 96 mínútum á dag í þátttöku í samfélaginu á meðan karlar vörðu um 54 mínútum.


Aldursflokkar

Fólk á aldrinum 70 ára og eldra notaði að jafnaði 4,5 klukkustundir á dag í afþreyingu ýmis konar en á aldrinum 30 – 54 ára voru innan við þrjár klukkustundir notaðar í sama tilgangi.

Rekstur heimilis var að sama skapi tímafrek iðja fyrir elsta aldurshópinn sem notaði um 4,4 klukkustundir í það. Hins vegar notuðu þeir sem eru á aldrinum 18 – 29 ára að jafnaði um 102 mínútur í rekstur heimilisins.

Um rannsóknina

Rannsóknin var lögð fyrir í dagana 9. - 23. nóvember 2023. Í úrtaki voru 5000 manns, 18 ára og eldri, búsettir á Íslandi og valdir með slembiaðferð úr þjóðskrá. Var hverjum og einum úthlutaðir tveir dagar af handahófi, einn virkur dagur og einn helgardagur. Var þátttakendum gert að skrásetja það sem þeir gerðu yfir daginn í gegnum spurningalista á vef Hagstofunnar.

Gögnum var safnað í gegnum vefform og var rannsóknin kynnt fyrir þeim sem valdir voru í úrtak með kynningarbréfi auk þess sem haft var samband símleiðis við þá sem ekki höfðu svarað tveimur dögum eftir að viðmiðunardegi var lokið til að hvetja til þátttöku. Kynningarbréfið var sent í bréfpósti en lykilorð og hlekkur á vefformið voru send rafrænt í gegnum Ísland.is. Að auki voru smáskilaboð send til að minna á rannsóknina í byrjun hvers viðmiðunardags og daginn eftir.

Í endanlegu úrtaki voru 4.966 manns. Nothæf svör voru alls 878 sem samsvarar 17,7% svarhlutfalli. Aðeins var mögulegt að birta niðurstöður eftir kyni fyrir karla og konur þar sem kynhlutlausir í svarendahópi voru mjög fámennir.

Tímarannsóknin var unnin í samstarfi við félags- og vinnumarkaðsráðuneytið sem fer með jafnréttismál en rannsóknir á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum hafa sýnt að þau störf séu fremur unnin af konum. Mælingar á því hvernig fólk ver tíma sínum geta gefið betri og dýpri skilning á aðstæðum og lífsgæðum í samfélaginu og nýst við ýmis konar stefnumótun stjórnvalda.

Vonast er til þess að gögn og rannsóknir sem þessar varpi ljósi á stöðu kynjanna sem er forsenda vandaðrar stefnumótunar.

Markmið tímarannsóknarinnar var að leitast við að fanga umfang ólaunaðra heimilis- og umönnunarstarfa og þannig meta skiptingu ógreidds vinnuframlags á milli kynjanna og nýta niðurstöður við stefnumörkun á sviði jafnréttis, fjölskyldumála, félagsmála og almennt í talnaefni um lífskjör og jafnrétti.


Talnaefni

Tímarannsókn 270924 (xlsx)


Lýsigögn


Öllum eru heimil afnot af tilraunatölfræði Hagstofu Íslands. Vinsamlegast getið heimildar.
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100. Netfang: upplysingar@hagstofa.is