ESA2010
Þjóðhagsreikningar
Um nokkurt skeið hefur staðið yfir endurskoðun á aðferðum við útreikning á þjóðhagsreikningum. Nýr staðall er frábrugðinn þeim eldri hvað varðar umfang og aðferðafræði sem endurspegla breytingar sem orðið hafa á efnahagslífi og rekstri fyrirtækja síðustu ár. Í september 2014 innleiddi Hagstofa Íslands þennan þjóðhagsreikningastaðal, European System of National Accounts 2010 (ESA 2010) í stað ESA 95, við gerð þjóðhagsreikninga. Nýi staðallinn var tekinn í notkun um svipað leyti í ríkjum EES og stefnt er að því að öll ríkin hafi lokið innleiðingu hans í lok september 2014. ESA 2010 er evrópsk útgáfa alþjóðlegs þjóðhagsreikningastaðals Sameinuðu þjóðanna, System of National Accounts 2008 (SNA 2008).
Í meginatriðum fylgir staðall Evrópusambandsins staðli Sameinuðu þjóðanna en er þó á ýmsan hátt ýtarlegri og setur nákvæmari vinnureglur til að tryggja samanburðarhæfni talna á milli Evrópuríkja. Samhliða þessum breytingum verður sending þjóðhagreikningagagna til alþjóðastofnana samræmd í einn gagnagrunn sem stofnanirnar hafa aðgang að.
Helstu breytingarnar sem hafa áhrif á landsframleiðslu og framsetningu þjóðhagsreikningatalna hér á landi eru:
- Rannsóknar- og þróunarkostnaður mun teljast til fjármunamyndunar en ekki aðfanga hjá fyrirtækjum með samsvarandi aukningu landsframleiðslu.
- Breyting á eignarhaldi vöru sem flutt er milli landa til frekari vinnslu mun ráða því hvort varan telst með í utanríkisviðskiptum eða ekki (e. goods sent for processing).
- Nýjar reglur eiga að gilda við skráningu á vöruviðskiptum milli landa þegar vara er seld en kemur aldrei til landsins sem keypti vöruna (e. merchanting).
Upplýsingar um staðlana og breytingar er að finna á:
- ESA 2010 handbók
- SNA 2008 handbók
- Samanburður á breytingum milli ESA2010 og ESA95
- Stutt lýsing frá Eurostat á breytingum
Vöru- og þjónustuviðskipti
Nýir staðlar um vöru- og þjónustuviðskipti sem unnir hafa verið undir forystu Sameinuðu Þjóðanna voru teknir í notkun á Íslandi í september 2014. Þær aðferðafræðibreytingar sem fylgja í kjölfarið leiða til þess að munur verður á birtum niðurstöðum fyrir vöruviðskiptin og þeim tölum sem notaðar eru í greiðslujöfnuði. Staðallinn fyrir vöruviðskiptin er International Merchandise Trade Statistics, Concepts and Definitions 2010 (IMTS 2010) og staðall þjónustuviðskipta, Manual on Statistics of International Trade In Services 2010 (MSITS 2010).
Helstu breytingarnar sem hafa áhrif á vöru- og þjónustuviðskipti hér á landi eru:
- Í vöruviðskiptum er að kaup innlendra skipa og flugvéla á eldsneyti erlendis eru talin með í nýja staðlinum.
- Í þjónustuviðskiptum er flokkun breytt nokkuð.
- Einnig breytist þekja þannig að tekjur íslenskra fyrirtækja af því að vinna vörur fyrir erlenda aðila verða nú taldar með í þjónustu.
- Milliliðaverslun ekki lengur hluti af þjónustuviðskiptum heldur bætist við vöruskipti í greiðslujöfnuði.
Þessar breytingar hafa veruleg áhrif á niðurstöður fyrir vöru-, þjónustuviðskipti og greiðslujöfnuð. Hagstofan birtir sérstakar brúartöflur í samræmi við ráðleggingar Sameinuðu þjóðanna ársfjórðungslega.
Upplýsingar um staðlana og breytingar er að finna á:
- IMTS 2010, Sameinuðu Þjóðirnar (UN)
- MSITS 2010, Sameinuðu Þjóðirnar (UN)
- Áhrif staðlabreytinga á vöruskipti og þjónustuviðskipti við útlönd
Greiðslujöfnuður við útlönd og erlend staða þjóðarbúsins
Í greiðslujöfnuði við útlönd og erlendri stöðu þjóðarbúsins sem Seðlabanki Íslands gefur út verða breytingar, meðal annars í beinni fjárfestingu, viðskiptum með vöru og þjónustu við erlenda aðila sem og lífeyris- og tryggingasjóðum sem teljast munu með fjármálalegum eignum og skuldum.
Nánari kynning á breytingunum