Tekjuafkoma hins opinbera var neikvæð um 10,7 milljarða króna árið 2015 eða 0,5% af landsframleiðslu. Til samanburðar var afkoman neikvæð um 1,2 milljarða króna árið 2014 eða 0,1% af landsframleiðslu.
Tekjur hins opinbera námu um 931 milljarði króna og jukust um 2,7% milli ára. Sem hlutfall af landsframleiðslu mældust þær 42,2% samanborið við 45,3% árið 2014. Útgjöld hins opinbera voru 942 milljarðar króna 2015 eða 3,7% meiri en 2014 en hlutfall þeirra af landsframleiðslu fór úr 45,3% í 42,7%.
Samkvæmt áætlun út frá greiðslutölum voru peningalegar eignir hins opinbera 52% af landsframleiðslu í árslok 2015 meðan áætlað er að heildarskuldir hins opinbera hafi verið 98%. Er þetta þriðja árið í röð þar sem hlutfall skulda hins opinbera fer lækkandi.
Út eru komin Hagtíðindi um fjármál hins opinbera árið 2015. Í því má finna talnalegt yfirlit um helstu þætti opinberra fjármála, þ.e. ríkis, sveitarfélaga og almannatrygginga. Áherslan er fyrst og fremst á hið opinbera en samsvarandi upplýsingar um undirgeira þess er að finna á vefsíðu Hagstofunnar.
Fjármál hins opinbera 2015, bráðabirgðauppgjör — Hagtíðindi