FRÉTT KOSNINGAR 24. FEBRÚAR 2015

Hagstofa Íslands hefur gefið út Hagtíðindi þar sem greint er frá niðurstöðum kosninga til Alþingis sem fram fóru 27. apríl 2013. Við kosningarnar voru alls 237.807 á kjörskrá eða 73,6% landsmanna. Af þeim greiddu 193.828 atkvæði eða 81,5% kjósenda sem var minnsta kosningaþátttaka í alþingiskosningum síðan 1942. Kosningaþátttaka kvenna var 81,9% en karla 81,1%. Við kosningarnar greiddu 32.199 manns atkvæði utan kjörfundar eða 16,6% kjósenda en sambærilegt hlutfall var 12,5% í kosningunum 2009.

Í kosningunum buðu fimmtán stjórnmálasamtök fram lista þar af ellefu í öllum kjördæmum. Af 1.512 frambjóðendum á landinu öllu voru 879 karlar eða 58,1% og 633 konur, 41,9%. Í þremur efstu sætum framboðslistanna var hlutfall kvenna 41,2%. Af kjörnum þingmönnum voru 38 karlar eða 60,3% og 25 konur, 39,7% og fækkaði kjörnum konum um tvær frá kosningunum 2009.

Úrslit kosninganna 27. apríl 2013 urðu þau að gild atkvæði voru 189.023 (97,5%), auðir seðlar 4.217 (2,2%) og aðrir ógildir seðlar 582 (0,3%). Sex stjórnmálasamtök hlutu hvert um sig meira en 5% atkvæða og kjörna fulltrúa á þing. Björt framtíð hlaut 8,2% atkvæða og sex menn kjörna, Framsóknarflokkur hlaut 24,4% gildra atkvæða og 19 menn kjörna, Sjálfstæðisflokkur 26,7% og 19 þingmenn, Samfylkingin 12,9% og níu þingmenn, Vinstrihreyfingin — grænt framboð 10,9% og sjö þingmenn og Píratar fengu 5,1% atkvæða og þrjá þingmenn. Önnur stjórnmálasamtök fengu samtals 22.300 atkvæði sem svarar til 11,8% gildra atkvæða.


Alþingiskosningar 27. apríl 2013 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.