Við alþingiskosningarnar 29. október síðastliðinn voru alls 246.542 á kjörskrá eða 74,1% landsmanna. Af þeim greiddu 195.203 atkvæði eða 79,2% kjósenda. Kosningaþátttaka kvenna var 79,5% en karla 78,8%. Eins og áður hafði sést við sveitarstjórnarkosningarnar 2014 og forsetakjör 2016 þá var kosningaþátttaka minni meðal yngri kjósenda en eldri. Að þessu sinni var hún minnst meðal kjósenda 20-24 ára, 65,7% en mest hjá kjósendum 65-69 ára, 90,2%.
Við kosningarnar greiddu 31.558 manns atkvæði utan kjörfundar eða 16,2% kjósenda en sambærilegt hlutfall var 16,6% í alþingiskosningunum 2013.
Í kosningunum buðu tólf stjórnmálasamtök fram lista þar af níu í öllum kjördæmum. Af 1.302 frambjóðendum á landinu öllu voru 707 karlar eða 54,3% og 595 konur, 45,7%. Í þremur efstu sætum framboðslistanna var hlutfall kvenna einnig 45,7%. Fjórir af hverjum tíu frambjóðendum töldust sérfræðingar (40%) og tæplega tveir af tíu (17%) stjórnendur eða embættismenn, þar af var hluti frambjóðenda sem sat á Alþingi á síðasta kjörtímabili. Af kjörnum þingmönnum voru 33 karlar eða 52,4% og 30 konur, 47,6%. Hafa aldrei fleiri konur verið kjörnar á þing.
Úrslit kosninganna 29. október 2016 urðu þau að gild atkvæði voru 189.648 (97,2%), auðir seðlar 4.874 (2,5%) og aðrir ógildir seðlar 678 (0,3%). Sjö stjórnmálasamtök hlutu hver um sig meira en 5% atkvæða og kjörna fulltrúa á þing. Björt framtíð hlaut 7,2% atkvæða og fjóra menn kjörna, Framsóknarflokkur hlaut 11,5% gildra atkvæða og átta menn kjörna, Viðreisn 10,5% og sjö þingmenn, Sjálfstæðisflokkur 29,0% og 21 þingmann, Píratar 14,5% og tíu þingmenn, Samfylkingin 5,7% og þrjá þingmenn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð 15,9% og tíu þingmenn. Önnur stjórnmálasamtök fengu samtals 10.889 atkvæði sem samsvarar 5,7% gildra atkvæða.
Þessar niðurstöður koma fram í Hagtíðindum um kosningar til Alþingis sem fram fóru 29. október 2016 sem Hagstofa Íslands hefur gefið út.
Alþingiskosningar 29. október 2016 - Hagtíðindi
Talnaefni:
Alþingiskosningar
Yfirlit