FRÉTT LAUN OG TEKJUR 20. JÚNÍ 2005


Atvinnutekjur hækka um 3,0% milli áranna 2003 og 2004 

Meðalatvinnutekjur í aðalstarfi voru 2.716 þúsund krónur árið 2004 og hækkuðu um  3,0% milli ára. 

Atvinnutekjur voru nokkru hærri á höfuðborgarsvæðinu en utan þess. Árið 2004 voru meðalatvinnutekjur á höfuðborgarsvæðinu 2.901 þúsund krónur og hækkuðu um 3,8% frá 2003. Utan höfuðborgarsvæðisins voru meðalatvinnutekjur 2.420 þúsund krónur og hækkuðu um 1,4% frá árinu áður. Á landsbyggðinni voru meðalatvinnutekjur hæstar á Austurlandi eða 2.562 þúsund krónur en lægstar á Norðurlandi vestra eða 2.258 þúsund krónur.

Atvinnutekjur hæstar í fjármálaþjónustu 
Meðalatvinnutekjur voru hæstar í fjármálaþjónustu eða 4.226 þúsund krónur árið 2004 og hækkuðu um 11,8% milli ára. Meðalatvinnutekjur voru lægstar í landbúnaði eða 1.037 þúsund krónur og lækkuðu um 19,5% milli ára.

Atvinnutekjur kvenna 63,1% af atvinnutekjum karla
Meðalatvinnutekjur karla voru 3.299 þúsund árið 2004 og höfðu hækkað um 2% frá 2003. Meðalatvinnutekjur kvenna voru 2.082 og höfðu hækkað um 4,5% frá árinu áður.

Munur er á atvinnutekjum karla og kvenna, en munurinn hefur minnkað. Að meðaltali voru konur með 63,1% af atvinnutekjum karla árið 2004 en voru með 61,6% af atvinnutekjum karla árið 2003.

Atvinnutekjur hæstar hjá fólki á aldrinum 35 til 54 ára
Atvinnutekjur eru hæstar um miðbik starfsævinnar þegar fólk er á aldrinum 35 til 54 ára. Árið 2004 voru meðalatvinnutekjur fólks á þessum aldri 3.288 þúsund krónur. Meðalatvinnutekjur karla á þessum aldri voru þó mun hærri en kvenna, 4.037 þúsund krónur hjá körlum borið saman við 2.495 þúsund krónur hjá konum.

Heildaratvinnutekjur
Árið 2004 voru heildaratvinnutekjur í aðal- og aukastarfi 448 milljarðar króna samanborið við 425,3 milljarða króna árið 2003 og jukust um 5,4% milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu voru heildaratvinnutekjur 293,9 milljarðar króna og jukust þær um 5,8% milli ára en heildaratvinnutekjur utan höfuðborgarsvæðis voru 151.2 milljarðar króna og jukust þær um 4,2%. Heildaratvinnutekjur á höfuðborgarsvæðinu voru 65,6% af heildaratvinnutekjum í landinu.

Skýringar:
Tölur um atvinnutekjur eru byggðar á upplýsingum frá ríkisskattstjóra um staðgreiðsluskyld laun. 

Atvinnutekjur eru skilgreindar sem skattskyldar launagreiðslur í aðalstarfi auk dagpeninga og ökutækjastyrks.

Heildaratvinnutekjur eru summa skattskyldra launagreiðslna í aðal- og aukastarfi auk dagpeninga og ökutækjastyrks. 

Aðalatvinnugrein hvers starfandi manns telst vera sú atvinnugrein sem skilar hæstum tekjum í hverjum mánuði, ef fleiri en ein grein kemur til greina.

Búseta er miðuð við búsetu einstaklings fyrsta hvers mánaðar en ekki aðsetur launagreiðanda.

Aldur er miðaður við þann aldur sem viðkomandi einstaklingur nær í árslok. Enginn sem er yngri en tólf ára í árslok telst hafa atvinnutekjur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.