FRÉTT LAUN OG TEKJUR 18. DESEMBER 2019

Ójöfnuður hefur sveiflast nokkuð milli ára samkvæmt niðurstöðum Lífskjararannsóknar Hagstofunnar. Gini-stuðullinn var 23,4 árið 2018 og hafði lækkað um 1,9 stig frá árinu 2017 þegar hann var 25,3. Hinsvegar hækkaði Gini-stuðullinn árið 2017 frá árinu 2016 þegar hann var 24,1. Fimmtungastuðulinn, sem mælir tekjumun á milli efsta og neðsta tekjufimmtungs, sýnir sömu tilhneigingu en hann fór úr 3,3 árið 2016 í 3,6 árið 2017 og svo niður í 3,2 árið 2018. Þetta gefur til kynna að ójöfnuður hafi aukist milli áranna 2016 og 2017 en minnkað aftur milli 2017 og 2018.

Þó ójöfnuður haldist áfram lágur í evrópskum samanburði hafa þessar sveiflur áhrif á stöðu Íslands miðað við önnur lönd, þar eð Ísland var með minnsta ójöfnuðinn árið 2016, deildi fjórða minnsta ójöfnuðinum með Finnlandi árið 2017 og deildi öðru sæti yfir minnsta ójöfnuðinn með Slóveníu árið 2018.

Gini-stuðullinn í Evrópu 2018

Enn vantar niðurstöður fyrir Tyrkland, Svartfjallaland og Norður-Makedóníu. Tölur fyrir Ísland 2018 eru bráðabirgðarniðurstöður.

Um lífskjararannsóknina í lýsigögnum.

Upplýsingar um tekjudreifingu eru unnar úr lífskjararannsókn Hagstofu Íslands. Gögnum er safnað frá febrúar og fram í maí ár hvert en tekjuupplýsingar byggjast á framtalsgögnum nýliðins árs. Í samræmi við vinnulag hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat, miðast umfjöllun við árið sem gagnanna er aflað en bent er á að tekjuupplýsingar eru frá árinu á undan.

Gini-stuðullinn (e. Gini-index) mælir í einni tölu milli 0 og 100 hvernig samanlagðar ráðstöfunartekjur á neyslueiningu allra einstaklinga í landinu dreifast. Hann væri 100 ef sami einstaklingur hefði allar tekjurnar en 0 ef allir hefðu jafnar tekjur.

Fimmtungastuðull (e. income quintile share ratio) mælir hlutfallið milli heildarsummu þeirra ráðstöfunartekna á neyslueiningu sem 20% tekjuhæstu einstaklingarnir fá og sambærilegra tekna þeirra 20% tekjulægstu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1285 , netfang Thora.Thorsdottir@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.