Hlutfall Íslendinga sem mældist fyrir neðan lágtekjumörk var 9,3% árið 2013 en mörkin eru skilgreind sem 60% af miðgildi ráðstöfunartekna heimila. Hlutfallið hefur verið nokkuð stöðugt í kringum 10% frá því árið 2004 þegar lífskjararannsókn Hagstofunnar var fyrst framkvæmd. Þegar litið er til fjölskyldugerða eru einstæðir foreldrar líklegastir til að lenda fyrir neðan lágtekjumörk en rúm 27% þeirra voru fyrir neðan mörkin. Karlar sem búa einir voru líklegri en konur sem búa einar til að lenda fyrir neðan lágtekjumörk. Rúm 23% einstæðra karla voru fyrir neðan mörkin á móti 9% einstæðra kvenna. Leigjendur voru mun líklegri en húseigendur til að lenda fyrir neðan lágtekjumörk eða tæp 22,4% á móti 5,8% eigenda.


 
Skýringar:  Öryggisbil (95%) 2013: Ein kona ±3,8, einn karl ±5,8 og einstætt foreldri ±7,5.

Tekjudreifing á Íslandi hefur lítið breyst frá árinu 2011. Tekjuhæsti fimmtungurinn hafði 3,3 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti. Munurinn var mestur árið 2009 þegar tekjuhæsti hópurinn var með 4,2 sinnum hærri tekjur en sá tekjulægsti.

Kaupmáttur hækkaði örlítið milli ára eftir að hafa farið lækkandi frá árinu 2009. Þróun kaupmáttar áranna 2011 til 2013 var svipuð í öllum tekjufimmtungum. Kaupmáttur þeirra tekjuhæstu rýrnaði hins vegar mest milli áranna 2009 og 2011.

Lágtekjumörk og tekjudreifing 2013 – Hagtíðindi

Talnaefni