FRÉTT LAUN OG TEKJUR 20. OKTÓBER 2016

Árið 2015 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 612 þúsund krónur á mánuði en helmingur launamanna hafði 535 þúsund krónur eða meira. Munurinn skýrist af dreifingu launa þar sem hæstu laun hækka meðaltalið og kjarasamningar tryggja ákveðin lágmarkskjör en kveða ekki á um hámarkskjör. Fjórðungur launamanna var með 433 þúsund krónur eða minna í heildarlaun og tíundi hver launamaður var með lægri laun en 348 þúsund krónur fyrir fullt starf. Þá voru rúmlega 7% fullvinnandi launamanna á íslenskum vinnumarkaði með yfir milljón á mánuði í heildarlaun. Myndin að neðan sýnir dreifingu heildarlauna.

 

Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum og var dreifing launa minnst meðal starfsmanna sveitarfélaga. Af launamönnum sem starfa hjá ríkinu voru 23% með heildarlaun yfir 800 þúsund krónur á mánuði, 19% launamanna á almennum vinnumarkaði og 5% launamanna sem starfa hjá sveitarfélögum. Hinsvegar voru rúmlega 60% launamanna á almennum vinnumarkaði með heildarlaun undir 600 þúsund krónum, 45% ríkisstarfsmanna og 85% starfsmanna sveitarfélaga.

Heildarlaun fullvinnandi starfsmanna á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 637 þúsund krónur á mánuði árið 2015 en heildarlaun opinberra starfsmanna 583 þúsund krónur. Þar af voru heildarlaun ríkisstarfsmanna 681 þúsund krónur en 490 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

Heildarlaun stjórnenda voru rúm milljón á mánuði
Árið 2015 voru heildarlaun eftir starfsstéttum að meðaltali á bilinu 438 þúsund krónur á mánuði hjá þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólki til 1.001 þúsund króna hjá stjórnendum. Heildarlaun skrifstofufólks voru 466 þúsund krónur á mánuði, verkafólks 475 þúsund krónur, tækna og sérmenntaðs starfsfólks 622 þúsund krónur, iðnaðarmanna 635 þúsund krónur og sérfræðinga 658 þúsund krónur á mánuði.

Dreifing launa innan starfsstétta var mismunandi. Þannig var dreifing heildarlauna skrifstofufólks frekar lítil en um 80% skrifstofufólks var með heildarlaun á bilinu 338 þúsund krónur til 607 þúsund króna. Heildarlaun stjórnenda voru á hinn bóginn mjög dreifð en 80% þeirra voru með laun á bilinu 546 þúsund krónur til 1.644 þúsund króna. Skýrist þessi mikla dreifing meðal stjórnenda helst af uppbyggingu starfaflokkunarkerfisins ÍSTARF95, sem starfsstéttir byggja á, en í hópi stjórnenda má bæði finna æðstu stjórnendur fyrirtækja og yfirmenn deilda.


Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Stjórnendur (1), sérfræðingar (2), tæknar og sérmenntað starfsfólk (3), skrifstofufólk (4), þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk (5), iðnaðarmenn (IÐN), verkafólk (VERK).

Heildarlaun starfsstétta voru mismunandi eftir því hvaða hluta vinnumarkaðarins er horft til. Þannig voru stjórnendur á almennum vinnumarkaði að meðaltali með heildarlaun 1.156 þúsund krónur á mánuði fyrir fullt starf, stjórnendur hjá ríki með 968 þúsund krónur en 722 þúsund krónur hjá sveitarfélögum. Verkafólk var hins vegar með 477 þúsund króna heildarlaun á almennum vinnumarkaði, 495 þúsund krónur hjá ríki og 424 þúsund krónur hjá sveitarfélögum. Starfsmenn sveitarfélaga voru með lægst heildarlaun óháð starfsstétt.

Heildarlaun lægst í fræðslustarfsemi
Heildarlaun voru hæst í atvinnugreininni fjármála- og vátryggingastarfsemi eða 815 þúsund krónur að meðaltali á mánuði, næst komu heildarlaun í rafmagns-, gas- og hitaveitum 808 þúsund krónur. Lægstu heildarlaunin voru í fræðslustarfsemi, 505 þúsund krónur. Sé horft til dreifingar á heildarlaunum þá var launamunur mestur innan fjármálastarfsemi en minnstur í fræðslustarfsemi. Miðgildi heildarlauna var hins vegar hæst í veitum, eða 772 þúsund krónur, en dreifing launa þar var minni en í fjármálageiranum og því færri gildi til hækkunar meðallauna.

 


Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).

Heildarlaun geta verið mjög ólík hjá einstökum starfsstéttum sé horft til atvinnugreina. Þannig voru sérfræðingar með heildarlaun á bilinu 540 þúsund krónur til 909 þúsund krónur á mánuði, lægst í fræðslustarfsemi og hæst í fjármálastarfsemi. Í heilbrigðis- og félagsþjónustu voru heildarlaun sérfræðinga 802 þúsund krónur og 898 þúsund krónur í rafmagns-, gas- og hitaveitum. Hafa ber í huga að störf innan atvinnugreina geta verið mismunandi. Sem dæmi eru kennarar stærsti hópur sérfræðinga í fræðslustarfsemi, en í fjármálastarfsemi eru sérfræðingar í viðskiptagreinum ráðandi, í veitum verkfræðingar og í heilbrigðis- og félagsþjónustu eru heilbrigðisstéttir, svo sem læknar og hjúkrunarfræðingar stærsti hópurinn. Dreifing launa innan starfsstéttar getur einnig verið mikil þó um sé að ræða sömu atvinnugrein. Sem dæmi má nefna þá var spönnin milli neðsta tíundahluta og þess efsta rúmlega 900 þúsund krónur hjá sérfræðingum í heilbrigðis- og félagsþjónustu en rúmlega 300 þúsund í fræðslustarfsemi.

Nánar um niðurstöður
Hagstofan birtir nú í fyrsta sinn upplýsingar um laun starfsstétta fyrir vinnumarkaðinn heild sinni og fyrir ólíka hluta vinnumarkaðarins. Einnig er í fyrsta sinn birtar upplýsingar um laun starfsstétta innan atvinnugreina. Þar sem samsetning starfsstétta er mismunandi eftir atvinnugreinum er í einhverjum tilvikum ekki hægt að birta einstakar starfsstéttir þar sem gæta verður hvort tveggja áreiðanleika og rekjanleika.

Upplýsingarnar taka til ársins 2015 en ætlunin er að birta sambærilegar upplýsingar aftur til ársins 2008 á næstu misserum. Áður birt talnaefni um meðallaun hefur verið fært í flokkinn eldra efni til aðgreiningar. Við samanburð við eldra talnaefni er rétt að hafa í huga að aðferðir og gögn hafa verið bætt.

Niðurstöður byggja á launarannsókn Hagstofu Íslands sem nær til rúmlega 70 þúsund launamanna. Launarannsóknin er lagskipt úrtaksrannsókn og því eru niðurstöður vegnar í samræmi við úrtakshönnun rannsóknar. Launarannsóknin nær til 80% af íslenskum vinnumarkaði þó að enn séu atvinnugreinar utan rannsóknar. Þá er einnig gerður fyrirvari við atvinnugreinina upplýsingar og fjarskipti en þar vantar upplýsingar um smærri fyrirtæki og fyrirtæki á sviði upplýsingatækni. Auk þess takmarkast upplýsingar við opinbera starfsmenn í atvinnugreinunum opinber stjórnsýsla, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsþjónusta. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður. Nánari upplýsingar um skilgreiningar og lýsingar á aðferðarfræði má finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.