FRÉTT LAUN OG TEKJUR 12. JÚLÍ 2021

Árið 2020 voru regluleg laun launafólks í fullu starfi að meðaltali 670 þúsund krónur á mánuði og var helmingur launafólks með laun á bilinu 480 til 749 þúsund krónur. Þá var tíundi hver launamaður með regluleg laun undir 400 þúsund krónum og tíundi hver með yfir eina milljón króna. Horft til heildarlauna var helmingur launafólks með laun á bilinu 570 til 908 þúsund krónur á mánuði, að jafnaði 794 þúsund krónur.

Skýring: Y ás sýnir líkindaþéttni (e. density) á því að hafa tiltekin laun sýnd á x ás. Flatarmál skyggðu svæðanna er jafnt og einn. Línan sýnir miðgildið. Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags- og bónusgreiðslur án tilfallandi yfirvinnu, sem tilheyra launaliðum sem eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili. Heildarlaun eru öll greidd mánaðarlaun einstaklingsins að undanskildum hlunnindum og akstursgreiðslum.

Laun og dreifing þeirra er mismunandi eftir atvinnugreinum en heildarlaun launafólks í fullu starfi voru að jafnaði hæst í fjármála- og vátryggingarstarfsemi (K) og veitum (D) árið 2020, eða tæplega 1,1 milljón krónur á mánuði. Lægst voru heildarlaunin að jafnaði í rekstri gististaða og veitingarekstri (I) eða um 597 þúsund krónur á mánuði. Dreifing heildarlauna var mest í fjármálastarfsemi en minnst í rekstri gististaða og veitingarrekstri og skýrist það meðal annars af samsetningu starfa innan atvinnugreina.

Í fjármálastarfsemi voru til dæmis rúmlega tveir þriðju launafólks í störfum sérfræðinga, tækna og sérmenntaðs starfsfólks meðan um helmingur starfa í rekstri gististaða og veitingarekstri voru störf við ræstingu og afgreiðslu. Vakin er athygli á því að í atvinnugreinum sem ná til opinbera geirans geta heildarlaun árið 2020 innihaldið afturvirkar launagreiðslur eða eingreiðslur vegna ársins 2019 þar sem endurnýjun kjarasamninga dróst fram á árið 2020.

Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Framleiðsla (C), rafmagns-, gas- og hitaveitur (D), vatnsveita, fráveita, meðhöndlun úrgangs og afmengun (E), byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (F), heild- og smásöluverslun, viðgerðir á vélknúnum ökutækjum (G), flutningur og geymsla (H), rekstur gististaða og veitingarekstur (I), upplýsingar og fjarskipti (J), fjármála- og vátryggingastarfsemi (K), opinber stjórnsýsla og varnarmál; almannatryggingar (O), fræðslustarfsemi (P), heilbrigðis- og félagsþjónusta (Q).

Mismunandi dreifing launa innan starfsstétta getur einnig skýrst af því að störf innan einstakra starfsstétta eru ólík. Þannig var dreifing heildarlauna skrifstofufólks árið 2020 frekar lítil en um 80% skrifstofufólks var með heildarlaun á bilinu 444 þúsund krónur til 789 þúsunda króna. Heildarlaun stjórnenda voru á hinn bóginn mjög dreifð en 80% þeirra voru með heildarlaun á bilinu 725 þúsund krónur til 1,9 milljóna króna á mánuði. Skýrist þessi mikla dreifing helst af ólíkum störfum innan starfsstéttarinnar stjórnenda, en í hópi stjórnenda má bæði finna æðstu stjórnendur fyrirtækja og yfirmenn deilda.

Skýring: Rétthyrningurinn afmarkar neðri og efri fjórðungsmörk og miðgildið skiptir honum í tvennt. Strikin marka 10/90 mörkin. Stjórnendur (1), sérfræðingar (2), tæknar og sérmenntað starfsfólk (3), skrifstofufólk (4), þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk (5), iðnaðarmenn (IÐN), verkafólk (VERK).

Breytingar á samsetningu sem hafa áhrif á laun
Laun í lægri tíundum hækkuðu meira á milli 2019 og 2020 en í þeim hærri. Þannig var hlutfallsleg hækkun reglulegra launa í lægstu tíund um 9,5% meðan sambærileg hækkun í efstu tíund var 5,1%. Skýrist það meðal annars af áherslum kjarasamninga á almennar krónutöluhækkanir og sérstakar hækkanir kauptaxta. Hlutfallsbreyting á launum varð því hærri eftir því sem laun voru lægri og öfugt. Árið 2020 var um margt óvenjulegt og urðu miklar breytingar á vinnumarkaði vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins. Nokkur hluti launafólks færðist úr fullu starfi í hlutastarf vegna hlutabótaleiðar, sem hafði áhrif á meðallaun í ákveðnum störfum þegar horft er til launa eftir vinnutíma. Fækkun launafólks á vinnumarkaði var einkum í lægri launuðum störfum sem hefur áhrif til hækkunar á meðaltali launa. Samhliða mátti merkja breytingar á vægi atvinnugreina, einkum sem tengjast ferðaþjónustu og opinbera geiranum.

Skýring: Línan á myndinni sýnir miðgildi. Regluleg laun eru greidd mánaðarlaun fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Í þessum launum eru hvers konar álags- og bónusgreiðslur sem tilheyra launaliðum sem eru gerðir upp á hverju útborgunartímabili hjá launagreiðanda. Regluleg mánaðarlaun hlutastarfsfólks eru umreiknuð í laun fyrir fullt starf.

Stytting vinnutíma fækkar vinnustundum en hefur ekki áhrif á mánaðarlaun
Greiddar stundir fullvinnandi launafólks lækkuðu að meðaltali um 1,4% milli áranna 2019 og 2020. Hér er um að ræða allar greiddar stundir og má rekja þessa fækkun bæði til samninga um styttingu vinnutíma en einnig til færri yfirvinnustunda sem unnar voru á árinu. Að jafnaði vann fólk í fullu starfi 10% færri yfirvinnustundir árið 2020 en 2019. Stytting vinnutíma hefur ekki áhrif á útreikninga mánaðarlauna, einungis á greiddar stundir.

Greiddum stundum fækkaði meira á almennum vinnumarkaði en hjá hinu opinbera þar sem greiddum vinnustundum launafólks í fullu starfi fækkaði um 2,7% milli ára á almennum markaði en 0,5% hjá hinu opinbera. Í því samhengi er vert að hafa í huga að samningar um styttingu vinnutímans komu til framkvæmda á árinu 2020 á almennum vinnumarkaði en á árinu 2021 hjá opinberum starfsmönnum.

Nánar um niðurstöður
Hagstofan birtir samræmda tímaröð fyrir árin 2014-2020 með upplýsingum um laun starfsstétta fyrir allan vinnumarkaðinn, einstakar atvinnugreinar og launþegahópa. Áður birtar niðurstöður fyrir árið 2019 hafa verið endurskoðaðar. Um er að ræða bráðabirgðaniðurstöður sem byggja á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands sem ná til rúmlega 91 þúsund launamanna á íslenskum vinnumarkaði. Launarannsókn er úrtaksrannsókn meðal launagreiðenda með 10 eða fleiri starfsmenn og nær til stærsta hluta vinnumarkaðar. Nánar um þekju rannsóknar, skilgreiningar og lýsingar á aðferðum í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Árið 2019 kváðu kjarasamningar á almennum vinnumarkaði meðal annars á um krónutöluhækkanir og styttingu vinnutíma sem kom til framkvæmda á árinu 2020. Þannig fóru greiddar stundir fyrir fullt starf afgreiðslufólks í VR og LÍV (Samband íslenskra verslunarmanna) úr 171,2 stundum á mánuði niður í 167,9 og vinnutími skrifstofufólks í VR og LÍV og félagsmanna SSF fór úr 162,5 í 159,3 þann 1. janúar 2020. Í kjarasamningum Samiðnar, Félags hársnyrtisveina (FHS), Grafíu, VM, Matvís og RSÍ voru launagreiðslur í kaffitímum (2 klukkustundir og 55 mínútur á viku) felldar niður frá 1. apríl 2020 og fækkaði greiddum stundum fyrir fullt starf úr 173,3 í 160 stundir.

Ekki voru gerðar breytingar á öðrum vinnutímaákvæðum þessara kjarasamninga, viðvera á vinnustað er í mörgum tilfellum óbreytt og starfsmenn hafa enn rétt á að taka kaffitíma. Hins vegar var opnað fyrir heimild til þess að þjappa vinnudeginum saman um sem nemur þessum kaffitímum og ef það er gert geta starfsmenn og launagreiðandi samið um 13 mínútna daglega viðbótarstyttingu eða alls 65 mínútur á viku og fara þá greiddar stundir niður í 156 á mánuði fyrir fullt starf. Sú breyting kemur inn í greiddar stundir í þeim tilfellum sem þetta hefur verið gert hjá launagreiðanda.

Sambærilegt ákvæði er að finna í fyrirtækjakafla kjarasamninga 19 aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins við SA. Í þeim tilfellum sem ákvæðið hefur verið virkjað hjá fyrirtækjum leiðir það til samdráttar í greiddum stundum.

Árið 2020 gerðu opinberir starfsmenn sambærilega kjarasamninga en þeir fólu í sér tvær kjarasamningshækkanir, vegna ársins 2019 og 2020, þar sem samningar höfðu verið lausir frá fyrri helmingi árs 2019. Heildarlaun 2020 hjá þeim hópi geta því innihaldið afturvirkar launagreiðslur eða eingreiðslur vegna ársins 2019 þar sem endurnýjun kjarasamninga dróst fram á árið 2020. Þá kváðu samningarnir á um styttingu vinnutímans frá 1. janúar 2020 fyrir fólk í dagvinnu og frá 1. maí 2021 fyrir fólk í vaktavinnu. Frekari umfjöllun um styttingu vinnutíma má finna í fréttum Hagstofu um launavísitölu, sjá 22. maí 2020, 23. febrúar 2021 og 23. júní 2021.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.