Í júní 2016 hækkuðu regluleg laun starfsmanna á almennum vinnumarkaði um 0,4% en laun hjá opinberum starfsmönnum hækkuðu um 4,6%, þar af hækkuðu starfsmenn sveitarfélaga um 3,9% og ríkisstarfsmenn um 5,2%. Hækkun hjá opinberum starfsmönnum skýrist meðal annars af kjarasamningum sem komu til framkvæmda í júnímánuði. Árshækkun launa, frá júní 2015, var 11,8% hjá starfsmönnum á almennum vinnumarkaði og 15,5% hjá opinberum starfsmönnum.
Laun hækka minnst í verslun
Árshækkun reglulegra launa á almennum vinnumarkaði í júní 2016 var á bilinu 9,6% hjá stjórnendum til 15,6% hjá iðnaðarmönnum. Á sama tímabili hækkaði verslunarfólk um 10,1%, skrifstofufólk 11,3%, verkafólk 11,7% og sérfræðingar 11,9%.
Sé horft til atvinnugreina á almennum vinnumarkaði hækkuðu laun mest á milli ára í veitustarfsemi eða 16,8% meðan hækkun var minnst í verslun eða 9,4%.
Nánar um mánaðarlega sundurliðun á launaþróun
Til að koma til móts við þarfir notenda um aukna tíðni á upplýsingum um launaþróun birtir Hagstofan nú í fyrsta sinn sundurliðaðar upplýsingar um launaþróun einstakra hópa á íslenskum vinnumarkaði á grundvelli mánaðar í stað ársfjórðungs eins og áður var. Tímaröðin nær aftur til ársins 2015 og verður framvegis viðhaldið mánaðarlega tæplega 90 dögum eftir lok viðmiðunarmánaðar. Heildarvísitala verður áfram birt rúmlega 20 dögum eftir að viðmiðunarmánuði lýkur. Birting á sundurliðun á launavísitölu kemur í staðinn fyrir vísitölu launa og verður þeirri tímaröð hætt.
Ný tímaröð byggir á endurskoðuðum vogum og nýju flokkunarkerfi atvinnugreina, ÍSAT08 í stað ÍSAT95. Samhliða nýju flokkunarkerfi hafa nýjar atvinnugreinar bæst við og gæði gagnsafns aukist.
Notendur þurfa að hafa í huga að meira flökt verður á launaþróun þegar horft er til mánaða í stað ársfjórðunga. Breytileikinn fer eftir um hvaða hóp er að ræða. Til dæmis er algengt að starfsstéttirnar verkafólk og verslunarfólk fái á hverju útborgunartímabili greitt vaktaálags- og/eða bónusgreiðslur sem eru breytilegar eftir mánuðum. Jafnframt gildir almennt að því meiri sundurliðun sem er á upplýsingum því meiri óvissa verður í mælingum.
Launavísitala er verðvísitala sem byggir á gögnum úr launarannsókn Hagstofu Íslands og sýnir breytingar á verði vinnustundar fyrir fasta samsetningu vinnutíma. Vísitalan tekur mið af breytingum reglulegra launa sem greidd eru fyrir umsaminn vinnutíma hvort sem um er að ræða dagvinnu eða vaktavinnu. Tekið er tillit til hvers konar álags-, bónus- og kostnaðargreiðslna sem gerðar eru upp á hverju útborgunartímabili. Hvorki er tekið tillit til tilfallandi yfirvinnu né óreglulegra greiðslna.
Nánari upplýsingar um útreikninga má finna í lýsigögnum um launavísitölu.